Molnar úr vegna skorts á mýkingarefni

Mannleg mistök við blöndun bindiefnis hefur valdið því að slitlag …
Mannleg mistök við blöndun bindiefnis hefur valdið því að slitlag sem var lagt um helgina á Suðurlandsvegi hefur byrjað að molna. Styrmir Kári

Mannleg mistök við blöndunina á efninu sem var notað við lagningu nýs slitlags á Suðurlandsvegi við Landvegamót um helgina urðu valdur þess að slitlagið á veginum fór að molna. Þetta segir Birkir Hrafn Jóakimsson, verkfræðingur Vegagerðarinnar, í samtali við blaðamann mbl.is.

Slitlagið hefur farið að molna og hefur hámarkshraði um vegakaflann verið lækkaður, samkvæmt Vísi sem sagði fyrst frá málinu. 

Birkir Hrafn segir fasta staðla vera við gerð þeirrar blöndu sem notuð er, en eitthvað hafi farið úrskeiðis við gerð þeirrar sem notuð var um helgina á Suðurlandsvegi. „Það virðist bara hafa vantað mýkingarefni í hana, þetta hefur verið hreint bik sem var dælt á bílana hjá okkur,“ segir hann.

Vegurinn er ekki ónýtur að sögn Birkis Hrafns og eru fulltrúar Vegagerðarinnar á leið á staðinn til þess að meta hvernig best sé að bæta stöðuna. Hann gerir ráð fyrir því að lagt verði yfir slitlagið sem nú er að molna.

Samkvæmt Birki Hrafni er mistökin ekki að rekja til Vegagerðarinnar þar sem Vegagerðin kaupir öll efni af birgja. Hann telur sig ekki vita hvert andvirði tjónsins sé, „Þetta er samt tjón og það verður líklega með einhverjum hætti gert upp milli Vegagerðarinnar og þeim birgja sem selur okkur bindiefnið.“

Veður mun ráða því hvenær verður hægt að gera við slitlagið, að sögn verkfræðingsins og eru vonir um að hægt verði að framkvæma úrbætur næstu daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert