Nokkrum sinnum í nálægð við dauðann

Fjallagarpurinn Simon Yates.
Fjallagarpurinn Simon Yates. Ljósmynd/Aðsend

Enski fjallamaðurinn Simon Yates heldur fyrirlestur í Bíó Paradís annað kvöld. Hann er einna þekktastur fyrir að hafa á fjallinu Siula Grandi í Perú árið 1985 skorið á línuna sem tengdi hann við klifurfélaga sinn Joe Simpson og varð þeim þannig báðum til bjargar.

Fjallað er um atvikið í bókinni vinsælu Touching the Void (Í snertingu við tómið) og samnefndri heimildarmynd.

Hefur eytt miklum tíma í Tierra del Fuego

Í fyrirlestrinum fer Yates yfir lífshlaup sitt á fjöllum en hann hefur ferðast um allan heim bæði sem klifrari og leiðsögumaður, klifið fjöll eftir nýjum leiðum og gengið á nokkra afskekktustu staði veraldar.

„Í byrjun fyrirlestrarins segi ég frá þegar ég var að byrja að klifra í Ölpunum, síðan frá því sem gerðist í Perú árið 1985 með Joe Simpson og svo tala ég um nýlegri fjallaferðir til Pakistan og Mið-Asíu,“ segir Yates, spurður nánar út í fyrirlesturinn.

Einnig ætlar hann að fjalla um klettaklifur sitt í Padagonia í Suður-Ameríku og klifur sem hann hefur farið í undanfarið á afskekktum stöðum, þar á meðal í Tierra del Fuego, sem er eyjaklasi syðst í Suður-Ameríku, þar sem hann hefur eytt miklum tíma.

Kleif Hraundranga í Öxnadal

Yates hefur verið tíður gestur á Íslandi á undanförnum árum bæði til að klifra en einnig í tengslum við ferðir sínar til Grænlands.

Hann er einmitt nýkominn úr tveggja vikna ferðalagi til Grænlands þar sem hann kannaði afskekktar slóðir og mun segja frá þeim leiðangri í fyrirlestrinum. „Ég er undrandi á því hversu fáir Íslendingar fara þangað, því þetta er yndislegur staður. Góða veðrið sem við fengum þar kom mér á óvart. Það var hvorki rigning né snjór, þangað til við komum til Íslands. Þið fáið alla rigninguna en þeir fá alla sólina, eða eitthvað í þá áttina,“ segir Yates og hlær.

Spurður út í klifur sitt á Íslandi kveðst hann meðal annars hafa stundað hér ísklifur. Honum er sérlega minnisstætt þegar hann kleif Hraundranga í Öxnadal, sem hann segir afar fallegan stað sem frábært hafi verið að klifra.

Séð heim að bænum Hrauni í Öxnadal. Hraundrangi er þar …
Séð heim að bænum Hrauni í Öxnadal. Hraundrangi er þar fyrir ofan. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Ekki aftur snúið eftir skólaferð

Hvenær byrjaðirðu að klífa fjöll og hvers vegna?

„Ég byrjaði þegar ég var unglingur. Fimmtán ára fór ég í skólaferð. Við fórum í útilegu, á kanó, í göngur og fjallaklifur. Þaðan þróaðist þetta áfram hjá mér. Ég byrjaði í fjallaklifri, fór svo í snjó- og ísklifur í Skotlandi, þaðan í Alpana og hélt svo bara áfram í átt að stærri fjöllum. Nýlega hef ég farið meira til afskekktari fjalla. Ég er hrifinn af fjöllum þar sem það er ekki annað fólk. Ég er að verða andfélagslegur á gamals aldri,“ segir Yates og hlær.

Listinn yfir afrek hans í fjallamennskunni er langur, hvert ætli sé stærsta afrekið hans til þessa?

„Ég á mér uppáhaldsfjöll. Mér finnst sérstaklega gaman að klifra í Tierra del Fuego, sérstaklega af því að svo fáir klifra þar og mjög lítið hefur verið gert þar.“

Ástríðan þarf að vera til staðar

Spurður um hvað helst þurfi til að verða góður fjallamaður nefnir hann að ástríðan verði að vera til staðar. „Stundum getur þetta verið mikið puð og ef þú hefur ekki ástríðuna þá myndirðu ekki leggja í þetta. Þetta er of erfitt til að gera þetta af hálfum hug.“

Hvernig heldurðu þér í formi?

„Ég æfi ekki mikið en ég fer í ferðir þrisvar til fjórum sinnum á ári, þannig að ég dett aldrei úr formi. Ég er 55 ára og enn í fullu fjöri. Sjáum til hve lengi ég endist, því maður veit aldrei með líkama, hvenær þeir stoppa eða bila en á meðan hef ástríðu fyrir þessu sé ég enga ástæðu til að hætta,“ segir Yates.

Frönsku alparnir.
Frönsku alparnir. AFP

Í mikilli hættu í Perú

Hann komst í nálægð við dauðann í Perú árið 1985, eins og frægt er orðið. Þrátt fyrir það kom aldrei til greina að leggja fjallaskóna á hilluna. „Nei, eins undarlega og það hljómar. Ég var ungur og mjög ákveðinn. Innan nokkurra vikna var ég mættur aftur í Alpana.“

Yates segist einu sinni til tvisvar í viðbót hafa komist í nálægð við dauðann í fjallamennskunni og nefnir grjóthrun sem varð úr fjalli sem hann var að klífa í Pakistan. „Ég var virkilega heppinn þar. Í fjallamennsku þarftu að fara varlega en stundum þarftu líka að vera heppinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert