„Þú getur ekki skoðað sjálfan þig“

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins.
Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins. mbl.is/Rax

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, telur að fréttir af starfsmannamálum OR og ON megi tengja við önnur mál innan ráðhússins.

„Þetta er atburðarás sem farin er af stað hjá borginni sem sér ekki fyrir endann á. Ég tel að jafnvel þessi mál hjá OR hafi sprottið upp frá því að hér voru ýmis mál í gangi í ráðhúsinu og starfsmenn borgarinnar átta sig á því að nú er komið fólk í ráðhúsið sem lætur ekki stjórnkerfið vaða yfir almenna starfsmenn,“ segir Vigdís í samtali við mbl.is.

Vísar Vigdís þar í mál Reykjavíkurborgar sem tapaði skaðabóta­máli vegna fram­komu skrif­stofu­stjóra gagn­vart starfs­manni borg­ar­inn­ar en um þann dóm tjáði Vig­dís sig.

Styður Áslaugu Thelmu

Varðandi uppsagnir innan Orku náttúrunnar og ósk Bjarna Bjarnasonar, forstjóra Orkuveitunnar, um að stíga tímabundið til hliðar á meðan rannsókn fer fram á málefnum Orkuveitunnar segir Vigdís að sem borgarfulltrúi hafi hún full yfirráð á því að hafa bæði skoðun og meiningu á þessum málum.

Vigdís lýsir yfir fullum stuðningi við Áslaugu Thelmu Einarsdóttur sem hyggst leita réttar síns vegna uppsagnar sinnar, sem hún tengir við kvartanir hennar undan hegðun Bjarna Más Júlíussonar, framkvæmdastjóra ON, sem var sagt upp störfum síðastliðinn miðvikudag.

„Ég stend jafnframt með hennar skoðunum að það er óskiljanlegt að enginn hafi reynt að nálgast hana og beðist afsökunar á þessu framferði. Eins eru það mjög einkennileg skilaboð sem birtast í þá veru að starfsmannastjórinn og forstjórinn kannast voða lítið við það að það hafi verið langvarandi vandræði með ákveðinn aðila,“ segir Vigdís.

Óháður aðili hafi umsjón með rannsókninni

Bryn­hild­ur Davíðsdótt­ir, formaður stjórn­ar OR, til­kynnti í gær­kvöldi að und­ir­bún­ing­ur að rann­sókn innri end­ur­skoðunar Reykja­vík­ur­borg­ar á um­rædd­um mál­efn­um OR væri þegar haf­inn. Vigdís er hins vegar þeirrar skoðunar að óháður aðili sé betur til þess fallinn að hafa umsjón með rannsókninni. „Það er skýlaus krafa af minni hálfu að þarna verði fenginn inn óháður aðili til að fara ofan í saumana á þessum málum. Þú getur ekki skoðað sjálfan þig, það er alveg hreint mál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert