Helga ætlar að hitta Áslaugu Thelmu

Með fyrstu verkum Helgu Jónsdóttur sem forstjóra Orkuveitunnar verður að …
Með fyrstu verkum Helgu Jónsdóttur sem forstjóra Orkuveitunnar verður að hitta Áslaugu Thelmu. Ljósmynd/Aðsend

Helga Jónsdóttir, sem kemur til starfa sem forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur á mánudaginn, ætlar að hitta Áslaugu Thelmu Einarsdóttur í næstu viku. Þetta staðfestir Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar í samtali við mbl.is.

Áslaug Thelma segist sjálf ekki hafa fengið fundarboð frá Orkuveitunni, en að hún sé ánægð með að Helga ætli sér að hitta hana og ræða málin. Hún mun því þiggja boðið er það berst.

Á fimmtudagskvöld féllst stjórn Orkuveitunnar á þá ósk Bjarna Bjarnasonar forstjóra fyrirtækisins að víkja úr forstjórastóli á meðan að óháð úttekt verður gerð á vinnustaðamenningu og málefnum tiltekinna starfsmanna, sem hafa verið til umfjöllunar upp á síðkastið.

Við sama tækifæri var tilkynnt að Helga myndi taka við starfinu tímabundið til tveggja mánaða frá og með næsta mánudegi. Ljóst er að það verður eitt af hennar fyrstu verkum að ræða við Áslaugu Thelmu, sem leitar nú réttar síns eftir að hafa verið sagt upp starfi sínu hjá Orku náttúrunnar, dótturfyrirtæki Orkuveitunnar, í síðustu viku.

Helga fær líka tækifæri til þess að hitta alla stjórnina sem var að ráða hana til starfa strax á fyrsta degi, er reglubundinn stjórnarfundur fer fram. Á þeim stjórnarfundi verður sömuleiðis tekið fyrir erindi frá lögmanni Áslaugar Thelmu, er varðar uppsögn hennar hjá ON.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert