Eiga bætt kjör bara við suma?

Elín Björg Jónsdóttir hættir sem formaður BSRB í haust eftir …
Elín Björg Jónsdóttir hættir sem formaður BSRB í haust eftir tæplega níu ára starf. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Yfirskrift þingsins er bætt kjör, betra samfélag,“ sagði Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, í opnunarávarpi sínu á 45. þingi BSRB á Hilton hótel Nordica í morgun. Hún sagði að BSRB vildi gera allt til að bæta lífskjör launafólks í landinu.

Hún sagði að hér væru allar forsendur til þess að samfélagið væri gott, enda væri hér mikið af auðlindum. Hins vegar gengi illa að skipta gæðunum. „Þeim sem hafa það verst gengur illa að ná endum saman á meðan þeir ríkustu hafa mánaðarlaun á við árslaun almenns launafólks,“ sagði Elín.

Hafa menn lært eitthvað af hruninu?

Hún kallaði eftir ábyrgð stjórnenda í atvinnulífinu og spurði hvort þeir hefðu eitthvað lært af hruninu. Hún taldi að margir þeirra hefðu ekkert lært af því annað en að senda ekki viðkvæmar upplýsingar í tölvupósti.

Þeir virðast enn halda að það sé ásættanlegt að greiða stjórnendum háa bónusa fyrir það eitt að sinna sínum störfum. Bónusa sem leggjast ofan á laun langt umfram það sem venjulegt launafólk getur látið sér detta í hug. Stjórnvöld hafa svo fylgt eftir með gríðarlegar launahækkanir æðstu stjórnenda,“ sagði Elín.

Hún sagði þetta sýna að ekki rói allir í sömu átt í samfélaginu. Sumir vilji bæta hag samfélagsins á meðan aðrir hugsi bara um að bæta eigin hag. BSRB kalli eftir aukinni samfélagslegri ábyrgð stjórnenda í atvinnulífinu og að það verði aldrei sátt í samfélaginu á meðan bætt kjör og lífsgæði eigi bara við suma.

Félagslegur stöðugleiki lykilatriði

Elín sagði að það mikilvægasta sem BSRB hefði beitt sér fyrir undanfarið væri félagslegur stöðugleiki. „Félagslegur stöðugleiki snýst um að búa launafólki félagslegt öryggi. Launafólk verður að hafa svigrúm til að mæta afleiðingunum af slysum, veikindum eða atvinnumissi. Það verður að geta eignast börn og komið þaki yfir höfuðið. Í því felst líka að tryggja öldruðum og öryrkjum lífeyri svo þeir geta lifað mannsæmandi lífi. Einnig að tryggja öryggi fólks með öflugri löggæslu, slökkviliði, sjúkraflutningum og tollgæslu,“ sagði Elín.

Þegar félagslegur stöðugleiki sé ekki til staðar sagði Elín að enginn stöðugleiki væri á vinnumarkaði.

40 stunda vinnuvika ekkert lögmál

Eitt af stóru verkefnum BSRB er vinnutími og Elín sagði að margir þurfi að vinna langan vinnudag, taka þá yfirvinnu sem býðst og jafnvel vera í fleiri en einni vinnu til að sjá sér og sínum farborða. 

Við því þarf að bregðast með því að hækka lægstu launin svo þau dugi til að lifa mannsæmandi lífi. Ef við sem samfélag getum ekki náð saman um það er illa fyrir okkur komið,“ sagði Elín og bætti við að núverandi skipulag um vinnutíma væri næstum því hálfrar aldar gamalt.

40 stunda vinnuvikan er ekkert lögmál. Í áratugi hefur BSRB beitt sér fyrir því að vinnuvikan verði stytt í 36 stundir. Og okkur hefur orðið býsna vel ágengt. Tilraunaverkefni með Reykjavíkurborg og ríkinu hafa skilað verðmætum niðurstöðum sem hægt er að byggja á.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert