Hnífstungurannsókn á lokametrunum

Lögreglan hefur þegar tekið skýrslur af öllum þeim sem að …
Lögreglan hefur þegar tekið skýrslur af öllum þeim sem að málinu komu. mbl.is/Eggert

Rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra á hnífaárás við útibú Arion banka á Geislagötu á Akureyri er á lokastigum. Skýrslutökum er lokið en beðið er eftir niðurstöðum úr sýnarannsóknum. Þetta staðfestir rannsóknarlögreglan á Akureyri.

Ráð er gert fyrir því að ákæra verði gefin út vegna málsins á næstu vikum, en árásin hefur verið rannsökuð sem tilraun til manndráps. Sá grunaði sætir gæsluvarðhaldi út mánuðinn.

Vitni urðu að árásinni á Geislagötu, auk þess sem lögreglan hefur undir höndum gögn úr eftirlitsmyndavélum sem sögð eru gefa góða mynd af atburðarásinni. Sá grunaði hafði yfirgefið vettvang þegar lögregla mætti á staðinn, en hann var handtekinn skömmu síðar. Blóðugur hnífur fannst við húsleit lögreglu á dvalarstað mannsins.

Sá sem varð fyrir árásinni var fluttur á Sjúkrahús Akureyrar þar sem hann gekkst undir aðgerð, en hann var ekki talinn í lífshættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert