Veggjöld ekki til umræðu

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir unnið að nefndaráliti sem …
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir unnið að nefndaráliti sem hefur ígildi þingsályktunar um veggjöld. mbl.is/Eggert

Veggjöld verða ekki tekin upp á næstunni og liggur ekki fyrir Alþingi tillaga þess efnis, segir Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata og áheyrnarfulltrúi í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. Hins vegar sé takmarkað hvaða fjármögnunarleiðir verði skoðaðar af hálfu ráðherra vegna væntanlegs frumvarps í vor, að mati þingmannsins.

„Það er engin þörf á að koma þessum hluta svona í gegn, samgönguráðherra er búinn að boða frumvarp í mars. Það verður hvort eð er engu hnikað á fyrstu tveimur árum samgönguáætlunar sama við hverju er bætt núna. Það er ekkert sem liggur á hvað það varðar,“ segir Björn Leví.

„Þetta er mjög undarleg framsetning. Það er verið að setja fram í nefndaráliti meirihlutans ígildi þingsályktunartillögu sem fær enga sérstaka umræðu eða umsagnir,“ segir hann.

Þingmaðurinn segir að í nefndarálitinu felist fullyrðing um að meirihluti þeirra gesta sem nefndin hefur boðað til fundar við hana hafi verið samþykkir því að tekin verði upp gjaldtaka á öllum stofnæðum inn á höfuðborgarsvæðið, Reykjanesbraut, Vesturlandsveg og Suðurlandsveg.

„Það er bara ekki satt,“ staðhæfir hann og vísar meðal annars til þess að gjaldtöku á Reykjanesbraut hafi verið mótmælt.

Með nefndaráliti meirihlutans er ráðherra ekki gefið svigrúm til þess að finna aðrar fjármögnunarleiðir, að mati Björns Leví þar sem frumvarp samgönguráðherra sem lagt verður fram í mars mun byggja á áliti meirihluta nefndarinnar.

„Þetta er þingsályktunartillaga inni í nefndaráliti sem er send í ráðuneytið og segir bara fjármagnið þetta með gjaldtöku,“ segir Björn Leví og ítrekar að honum finnist framsetningin undarleg. „Við getum ekki kosið um það sem stendur inni í nefndarálitinu.“

Björn Leví upplýsir að Píratar funda í kvöld vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert