Tryggi hlutastörf fólks með skerta starfsgetu

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ. Ljósmynd/Aðsend

Forsætisráðherra tekur undir með ÖBÍ og Þroskahjálp og setur í gang vinnu við að móta stefnu um hlutastörf hjá hinu opinbera fyrir fólk með skerta starfsgetu. Þetta kemur fram á vef Öryrkjabandalagsins.

Þar kemur fram að Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, hafi farið ítarlega yfir stöðu öryrkja á vinnumarkaði á fundi með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra fyrir helgi. Þar benti Þuríður á að hið opinbera yrði að tryggja framboð hlutastarfa fyrir fólk með skerta starfsgetu og tók Katrín undir það markmið.

Fram kemur á vefsíðu ÖBÍ að forsætisráðherra hafi jafnframt lýst því opinberlega að hún muni setja í gang vinnu til að bæta úr og vill fá sveitarfélög til samstarfs. Einnig sé mikilvægt að atvinnurekendur taki þátt.

Í minnisblaði sem Þuríður afhenti Katrínu er farið ítarlega yfir stöðu fatlaðs fólks á vinnumarkaði og hvað þurfi að gera í tengslum við fyrirhugaðar kerfisbreytingar. Hún benti á samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem er grundvallarplagg í öllu starfi ÖBÍ og sem stjórnvöld hafa fullgilt. Þar er meðal annars fjallað um skyldu stjórnvalda til að vinna að inngildum vinnumarkaði fyrir alla (e. inclusive employment market). 

Öryrkjabandalagið leggur til að forsætisráðherra setji saman starfshóp þar sem hagsmunasamtök fatlaðs fólks eigi m.a. sæti. Verkefni hópsins væri að marka stefnu stjórnvalda (ríkis og sveitarfélaga) varðandi inngildan vinnumarkað, og hvernig Ísland uppfylli alþjóðlegar skyldur sínar í atvinnumálum fatlaðs fólks. Starfshópurinn skili tillögum innan þriggja mánaða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert