Vilja umboðsmann fyrir fatlaða og langveika

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, afhenti forsætisráðherra tillögu um að …
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, afhenti forsætisráðherra tillögu um að sett verði á fót embætti umboðsmanns fatlaðs og langveiks fólks.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, afhenti Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í dag skriflega tillögu um að sett verði á fót embætti umboðsmanns fatlaðs og langveiks fólks.

Samkvæmt tillögunni yrði hlutverk umboðsmanns fatlaðs og langveiks fólks að taka við erindum frá einstaklingum og fella úrskurði út frá gildandi lögum, sem væru til grundvallar skaðabótamála ef ekki er brugðist við. Embættið hefði þá einnig það hlutverk að benda stjórnvöldum á gloppur í íslenskri löggjöf um mannréttindi út frá skuldbindingum alþjóðasáttmála, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá ÖBÍ.

Öryrkjabandalagið bendir á að sams konar embætti séu starfrækt annars staðar á Norðurlöndunum og að mikilvægt sé að slíkt embætti verði sett á fót hérlendis sem fyrst „enda hljóti það að vera vilji stjórnvalda að tryggja réttindi þessa hóps og standa þar með jafnfætis þeim löndum sem Íslendingar bera sig saman við“.

Þær Þuríður Harpa og Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar, sem einnig sat fundinn, ræddu ítarlega um kjaramálin á fundinum með Katrínu. Meðal annars var farið yfir fjárlagafrumvarp ársins, fyrirhugaðar breytingar á almannatryggingakerfinu, krónu-á-móti-krónu skerðinguna, SFRR og vinnumarkaðinn og fatlað fólk.

Bent var á að fjárlagafrumvarp þessa árs hefði valdið Öryrkjabandalaginu vonbrigðum og ljóst væri að kjör öryrkja myndu ekki batna að raungildi í ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert