Slæm færð í efri byggðum

Ef fólk er á illa búnum bifreiðum til vetraraksturs er …
Ef fólk er á illa búnum bifreiðum til vetraraksturs er skynsamlegt að skilja þær eftir heima og nýta sér almenningssamgöngur eða fara gangandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki hefur verið jafn slæmt færi á höfuðborgarsvæðinu í vetur og er þennan morguninn og ráðleggja snjóruðningsmenn þeim sem eru á illa búnum bifreiðum að fara ekki út í umferðina. Snjórinn er sá mesti sem við höfum séð í vetur, segir Þröstur Víðisson, verkstjóri hjá Reykjavíkurborg.

Öll snjóruðningstæki Reykjavíkurborgar hafa verið að störfum frá því klukkan fjögur í nótt og er verið að hreinsa og salta stofnleiðir og þær leiðir sem strætó ekur. Ólíklegt er að takist að hreinsa íbúðagötur þennan morguninn. 

Færðin er óvenjuerfið ekki síst í efri byggðum þar sem það er mikið slabb og þungt færi. Þetta tekur tíma og því ráðlagt fyrir fólk að gefa sér góðan tíma á leið til vinnu eða skóla þennan morguninn. Þröstur ráðleggur þeim sem hafa tækifæri til að sleppa bílnum, ekki síst ef hann er illa búinn enda geta bílar sem ekki eru búnir til vetraraksturs tafið alla aðra í umferðinni. „Ég er hræddur um að þetta verði þung umferð á eftir,“ sagði Þröstur í samtali við mbl.is á sjötta tímanum í morgun.

Spáin gerir ráð fyrir austan 8-13 m/s með morgninum og éljum, en hægari breytilegri átt eftir hádegi á höfuðborgarsvæðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert