„Ekki nóg að hugsa bara um sjálfan sig“

Snjókoma í borginni.
Snjókoma í borginni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það þarf að huga að því að það er ekki nóg að geta séð fram fyrir sig,“ segir Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

„Okkar menn voru uppteknir í því í morgun að stöðva ökumenn sem höfði aðeins skafið smávegis gat í snjóinn á framrúðunni. Það eru bæði hjólandi og gangandi vegfarendur í umferðinni og það þarf að geta horft allan hringinn. Það er ekki nóg að hugsa bara um sjálfan sig, heldur þarf að hugsa um aðra líka.“

Ómar segir umferðina hafa verið ansi þunga í morgun. „Umferðin á stofnbrautum var mikil og gekk hægt, og sérstaklega erfitt var fyrir íbúa úthverfa að komast inn á stofnbrautirnar.“

Allt gekk þetta þó að mestu óhappalaust fyrir sig og engin slys urðu á fólki. „Svo greiddist úr þessu þegar líða fór á morguninn, en þetta verður væntanlega svona næstu daga á meðan élin ganga yfir og fólk þarf fyrst og fremst að sýna þolinmæði og aðgát.“

Reykjavíkurborg hefur að mestu tekist að halda aðalstofnleiðum greiðum og unnið er að hreinsun íbúðagatna. Vetrarfærð er á vegum og eru vanbúnir bílar best geymdir heima.

Reykjavíkurborg hefur að mestu tekist að halda aðalstofnleiðum greiðum.
Reykjavíkurborg hefur að mestu tekist að halda aðalstofnleiðum greiðum. mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert