Vara við hálku á Suðvesturlandi

Hiti fer upp fyrir frostmark um stund sunnanlands í dag …
Hiti fer upp fyrir frostmark um stund sunnanlands í dag og því gæti orðið flughált þegar hlánar ofan á þjappaðan snjóinn. mbl.is/Golli

Úrkomusvæði, með töluvert hlýrra lofti en verið hefur, gengur yfir suðvestanvert landið í dag og líkur eru á að hláni við suðurströndina og jafnvel á Reykjanesi. Þegar hlánar í stutta stund ofan á þjappaðan snjó getur orðið flughált, til dæmis í innkeyrslum og á göngustígum og vissara að fara öllu með gát, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er hálka eða hálkublettir á vegum á Suðurlandi og einhver éljagangur. Hálkublettir eru á Reykjanesbraut og á höfuðborgarsvæðinu en annars víða hálka eða hálkublettir á vegum. Á Hellisheiði og Þrengslum er hálka og éljagangur.

Annars er gert ráð fyrir hægri breytilegri átt á landinu en norðanátt, 8-13 metrum á sekúndu, austast. Skýjað verður um landið austanvert en úrkomulítið og allvíða talsvert frost.

Þegar líða fer á morguninn mun ganga í austanátt, 8-15 metra á sekúndu, og hvassast verður við suðvesturströndina, en lægir síðdegis.

Minnkandi frost er einnig fyrir norðan en hiti verður í kringum frostmark síðdegis á sunnanverðu landinu.

Veðurhorfur næstu daga:

Á föstudag:
Norðaustan og austan 8-15 m/s, en lægir heldur þegar líður á daginn. Víða dálítil él, en úrkomulítið á SV- og V-landi. Kólnar í veðri og frost yfirleitt 3 til 14 stig um kvöldið, kaldast í innsveitum norðanlands.

Á laugardag:
Norðvestlæg átt, 5-13 m/s og stöku él með austurströndinni. Mun hægari vindur annars staðar og léttskýjað á S- og V-landi. Frost 3 til 12 stig yfir daginn. 

Á sunnudag:
Suðlæg átt og víða léttskýjað en þykknar upp með vaxandi suðaustanátt og snjókomu S- og V-lands um kvöldið. Áfram kalt í veðri.

Á mánudag:
Gengur í vestlæga átt með éljum víða um land. Hiti breytist lítið.

Á þriðjudag og miðvikudag:
Útlit fyrir norðanátt með éljum N- og A-til á landinu en bjartviðri S- og V-til. Frost um allt land.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert