Ruddust inn í íbúð í miðborginni

Tilkynning barst til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í morgun um tvo einstaklinga sem ruðst hefðu inn í íbúð í miðborg Reykjavíkur og veist að húsráðanda.

Stuttu síðar óku árásarmennirnir á brott í bifreið. Lögreglan hafði upp á þeim í kjölfarið þar sem henni var ekið austur Bústaðaveg. Ökumaðurinn hlýddi ekki merkjum lögreglunnar um að stöðva för sína og hófst þá eftirför.

Ökumaðurinn stöðvaði að lokum bifreiðina og var hann ásamt farþega handtekinn. Reyndust þeir báðir vera undir áhrifum áfengis og fíkniefna ásamt því að vera með fíkniefni meðferðis.

Ekki er vitað hvert tilefni árásarinnar var en hinir handteknu verða yfirheyrðir þegar hægt verður að taka skýrslu af þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert