Rann 300 metra niður Hvannárgil

Mikil þoka var á svæðinu og aðstæður erfiðar því Hvannárgilið …
Mikil þoka var á svæðinu og aðstæður erfiðar því Hvannárgilið er mjög bratt. Ljós­mynd/​Slysa­varna­fé­lagið Lands­björg

Það var göngumanninum, sem sat fastur á syllu í Hvannárgili fyrir neðan Goðahraun á Fimmvörðuhálsi, til happs að renna ofan í sprungu fulla af snjó. Það varð til þess að hann staðnæmdist og ef ekki hefði verið fyrir snjóinn er ómögulegt að segja til um hversu langt hann hefði runnið niður gilið.

Þetta segir Elva Björk Árnadóttir, sem var í aðgerðarstjórn svæðisstjórnar í gær, í samtali við mbl.is.

Setja þurfti upp línur og tryggingar til að komast að …
Setja þurfti upp línur og tryggingar til að komast að manninum enda aðstæður mjög varasamar. Ljós­mynd/​Slysa­varna­fé­lagið Lands­björg

Klukkan var orðin hálftólf í gærkvöldi þegar björgunarmenn komust loksins að manninum sem hafði setið fastur í Hvannárgili frá því klukkan sex um daginn. Hann var orðinn mjög kaldur, blautur og hrakinn þegar björgunarmenn komu að honum.

Fyrstu upplýsingar sem bárust björgunaraðilum voru þær að maðurinn hefði fest fótinn milli steina á syllu í Goðahrauni. Það reyndust ekki nákvæmar upplýsingar því maðurinn hafði runnið niður Hvannárgil fyrir neðan Goðahraun og var ekki fastur milli steina en vegna þess hversu bratt gilið er gat hann ekki klifrað upp sjálfur.

Hann var ekki með sjáanlega áverka en var kvalinn mjög.

„Hann var í Hvannárgili og hafði runnið einhverja 300 metra niður. Það var þoka og mjög bratt. Það var honum til happs að hann rann ofan í sprungu fulla af snjó og stoppaði því. Það er ómögulegt að segja hversu langt hann hefði runnið ef hann hefði ekki stoppað,“ útskýrir Elva Björk.

Eins og sést á myndunum var gríðarleg þoka á vettvangi …
Eins og sést á myndunum var gríðarleg þoka á vettvangi í gær sem gerði björgunaraðilum erfitt fyrir. Ljós­mynd/​Slysa­varna­fé­lagið Lands­björg

Hvannárgil er fyrir neðan gönguleiðina við Goðahraun en maðurinn hafði farið út fyrir hefðbundna gönguleið og var að leika sér að því að klifra þar þegar honum skrikaði fótur og rann niður gilið.

Elva Björk segir að maðurinn og björgunaraðilar hafi vissulega verið í hættu enda hallinn í gilinu mikill. „Það er mikill halli þarna og það þurfti að setja upp línur og tryggingar. Hallinn var töluverður,“ segir hún.

Eftir að björgunaraðilar náðu að koma hita og orku í …
Eftir að björgunaraðilar náðu að koma hita og orku í manninn var honum fylgt í bíl björgunarsveitarinnar sem ók með hann í Skóga. Ljós­mynd/​Slysa­varna­fé­lagið Lands­björg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert