Jarðskjálfti norðan við Siglufjörð

Skjálftinn mældist rúmlega 20 km norður af Siglufirði.
Skjálftinn mældist rúmlega 20 km norður af Siglufirði. Kort/Veðurstofa Íslands

Jarðskjálfti af stærðinni 4,6 varð norður af Siglufirði nú rétt fyrir klukkan eitt. Skjálftinn mældist á 2,7 kílómetra dýpi rúmlega 20 kílómetra norðnorðvestur af Siglufirði.

Að minnsta kosti einn skjálfti hefur mælst í kjölfarið, litlu nær Siglufirði, af stærðinni 1,9.

Fram kemur í frétt á vef Veðurstofunnar að skjálftans hafi orðið vart víða á Norðurlandi og höfðu Veðurstofunni borist yfir 100 tilkynningar vegna hans á þriðja tímanum í nótt. Skjálftinn virðist hafa fundist allt frá Blönduósi í vestri að Húsavík í austri, en engar tilkynningar um skemmdir hafa þó borist Veðurstofunni.

Engir stórir eftirskjálftar hafa komið enn, en nokkrir minni og hafa þeir stærstu verið 2,6 og 2,1. 

Skjálftinn varð vegna jarðskorpuhreyfinga á Tjörnesbrotabeltinu. Nánari staðsetning skjálftans er vestast á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu. Öflug jarðskjálftahrina varð á svipuðum slóðum haustið 2012. Stærstu skjálftarnir í þeirri hrinu voru 5,6 og 5,4 að stærð. Árið 2018 urðu þrír skjálftar stærri en 3,0 að stærð á svæðinu, en skjálftinn í nótt er sá fyrsti síðan 2012 sem er stærri en 4,0 að stærð. Því má segja að skjálftar af þessarri stærðargráðu eru þekktir á þessu svæði.

Fréttin hefur verið uppfærð. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert