Áheitametið fallið

Katerina Kratochvilova Kriegelova sést hér koma í mark.
Katerina Kratochvilova Kriegelova sést hér koma í mark. Ljósmynd Eva Björk Ægisdóttir

Áheitametið í tengslum við Reykjavíkurmaraþonið frá því í fyrra er fallið og allt stefnir í að áheitin fari yfir 160 milljónir í ár, en þau eru þegar komin í rúmlega 159 milljónir króna. Áheitasöfnunin verður opin til miðnættis á mánudag.

Í fyrra var sett áheitamet þegar 156.962.358 krónur söfnuðust til góðra málefna en hér er hægt að heita á hlaupara. 

Olga Katrín Davíðsdóttir Skarstad hefur safnað mestu, 1.390 þúsund krónum, en hún hljóp til styrktar litlu systur sinni sem greindist með heilaæxli í fyrra. 

Agla Sól Pétursdóttir hefur safnað 952 þúsund krónum fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna og Arnar Hallsson hefur safnað 927 þúsund krónum fyrir CMT4A-styrktarsjóð Þórdísar. Tilgangur félagsins er að afla fjár til að styrkja rannsóknir á CMT4A-sjúkdómnum í þeim tilgangi að finna lækningu og jafnframt að styrkja Þórdísi Elísabetu vegna ýmissa fjárútláta sem fylgja sjúkdómnum. Charcot-Marie-Tooth (CMT) er flokkur taugahrörnunarsjúkdóma með svipuð en misalvarleg einkenni sem orsakast af göllum í genum úttaugakerfisins. Þórdís Elísabet er 10 ára stúlka sem er með mjög sjaldgæfa og alvarlega undirtegund sem nefnist CMT4A og orsakast af galla í GDAP1-geninu. Sjúkdómurinn veldur stigvaxandi lömun í útlimum, en einnig getur hann valdi þindarlömun og raddbandalömun. Flestir einstaklingar með CMT4A eru bundnir við hjólastól við 10-20 ára aldur.

Alls tóku 14.667 manns þátt í hinum ýmsu hlaupaleiðum Reykjavíkurmaraþons í dag.

Anna Lilja Sigurðardóttir, upplýsinga- og samskiptastjóri Íþróttabandalags Reykjavíkur, segir að keppnin í ár hafi gengið mjög vel en þegar blaðamaður mbl.is heyrði í henni voru fimm keppendur enn ókomnir í mark og von var á þeim fljótlega. 

Frábært hlaupaveður gladdi marga og hafa aldrei jafn fáir þurft á aðstoð að halda hjá hjúkrunarfólki í sjúkratjaldinu og í ár. Skipti þar miklu að ekki var sól heldur nánast logn og léttskýjað. 

Barbora Nováková frá Tékklandi sigraði í maraþoni kvenna í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka á tímanum 3:00:40.

Í öðru sæti og fyrst íslenskra kvenna var Hólmfríður J. Aðalsteinsdóttir á tímanum 3:04:43. Maraþonið er jafnframt Íslandsmeistaramót í maraþoni og Hólmfríður því einnig Íslandsmeistari. Í þriðja sæti var Lidya Orozco Medina frá Spáni á 3:08:48. Í öðru sæti í Íslandsmeistaramótinu í maraþoni kvenna var Melkorka Árný Kvaran á tímanum 3:23:32 og í því þriðja Andrea Hauksdóttir á 3:26:24.

Arnar Pétursson sigraði í maraþoni karla í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 2019. Maraþonið er jafnframt Íslandsmeistaramót í maraþoni og Arnar því Íslandsmeistari og það fjórða árið í röð. Tími Arnars var 2:23:08 og er það besti tími sem Íslendingur hefur náð í Reykjavíkurmaraþoni.

Brian Petrocelli frá Bandaríkjunum var í öðru sæti á 2:38:20 og í þriðja sæti Drake Vidrine, einnig frá Bandaríkjunum á 2:44:45.

Fjórði, og annar Íslendingur í mark, var Sigurjón Ernir Sturluson á 2:45:40 en í þriðja sæti í Íslandsmeistaramótinu var Kristján Svanur Eymundsson á 2:49:50.

Hlynur Ólason var fyrstur í mark í 10 km hlaupinu.
Hlynur Ólason var fyrstur í mark í 10 km hlaupinu. Ljósmynd Eva Björk Ægisdóttir

Hlynur Ólason og Katerina Kratochvilova Kriegelova frá Tékklandi sigruðu í 10 km hlaupinu í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 2019.

Hlynur sigraði á tímanum 33:59 en annar í karlaflokki var Þórólfur Ingi Þórsson á 34:08 og þriðji Rimvydas Alminas frá Litháen á 34:19. Í fimmta sæti og þriðji íslenski karl var Vilhjálmur Þór Svansson á 35:04.

Katerina sigraði á tímanum 35:49. Í öðru sæti og fyrst íslenskra kvenna var Elín Edda Sigurðardóttir á 35:55. Í þriðja sæti var Arndís Ýr Hafþórsdóttir á 37:19. Helga Margrét Þorsteinsdóttir var í fjórða sæti og þriðja sæti íslenskra kvenna á tímanum 38:30.

Hér er hægt að skoða tímana í hlaupum dagsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert