Fáum aðstöðu fyrir ungdóminn

Reiðhöllin verður byggð framan við hesthúsin.
Reiðhöllin verður byggð framan við hesthúsin. Ljósmynd/Ása Hólmarsdóttir

Hestamannafélagið Dreyri er að undirbúa byggingu reiðskemmu í hesthúsahverfinu Æðarodda á Akranesi. Formaður félagsins vonast til að framkvæmdir hefjist á næstu mánuðum, í það minnsta rísi húsið á næsta ári.

Reiðskemman verður 25 sinnum 50 metrar að gólfflatarmáli. Hún er ætluð til að félagsmenn geti þjálfað hesta sína inni að vetrinum. „Aðalhugsunin er sú að við höfum aðstöðu fyrir æfingar og starf fyrir ungdóminn allt árið,“ segir Ása Hólmarsdóttir, formaður Dreyra.

Áætlað er að kostnaður við bygginguna verði 120 milljónir kr., að meðtöldum gatnagerðargjöldum til bæjarins. Félagið leggur sjálft til 26 milljónir og Hvalfjarðarsveit 10 milljónir enda nær félagssvæðið til beggja sveitarfélaganna. Akranesbær greiðir það sem upp á vantar. Ása segir að félagið eigi ágætan sjóð enda hafi það verið að spara fyrir reiðskemmu í nokkur ár. Raunar séu félagsmenn löngu orðnir óþreyjufullir í biðinni enda sé Akranes síðasti eða með allra síðustu bæjum landsins sem ekki hafi reiðskemmu til afnota fyrir æskulýðsstarf og tamningamenn.

Gatan heiti Blautós

Beinast lá við að gefa reiðhöllinni númerið 1 við Æðarodda en það hefði þýtt að númera hefði þurft öll hesthúsin upp á nýtt. Því var ákveðið að búa til nýja götu sem þó verður ekki lögð. Dreyri leggur til við bæinn að nafn hennar verði Blautós. Það segir Ása að sé gert með vísan til samnefnds óss sem gatan liggur að en neitar því að það hafi nokkuð með gamlar syndir hestamanna að gera.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert