Veröld með vatnslitum

Derek Karl Mundell, formaður Vatnslitafélags Íslands, við eigin mynd á …
Derek Karl Mundell, formaður Vatnslitafélags Íslands, við eigin mynd á sýningunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrsta samsýning Vatnslitafélags Íslands er í Gallerí Göngum við Háteigskirkju og hefur vakið athygli, að sögn Dereks Karls Mundells, formanns félagsins, en henni lýkur 30. nóvember. „Aðsóknin hefur verið mjög góð. Þetta er sölusýning og margir hafa sýnt mikinn áhuga á myndunum,“ segir hann.

Á sýningunni eru 50 myndir eftir 33 listamenn. Sýningarnefndin skipaði þriggja manna dómnefnd fagmanna utan félagsins en með reynslu af vatnslitamálun og kennslu í faginu. Hver félagi mátti senda inn allt að þrjár myndir og bárust 177 myndir frá 63 myndlistarmönnum. „Úrvalið var mikið og dómnefndin var aðeins sammála um eina mynd,“ segir Derek.

Félagið var stofnað 19. febrúar á þessu ári að frumkvæði Dereks, sem kom fyrst til Íslands 1973 og hefur búið hér frá 1976. Hann kenndi vatnslitamálun í Myndlistaskóla Kópavogs í 11 ár og hafði ákveðið með góðum fyrirvara að hætta að vinna, þegar hann yrði 67 ára. „Ég stóð við það í fyrra, en þá hafði ég lofað sjálfum mér að stofna félagið.“

Tilgangur félagsins er að efla stöðu vatnslitamálunar í landinu og stuðla að samvinnu félaga á því sviði. Yfir 170 manns eru í félaginu, atvinnu- eða áhugalistamenn á aldrinum 27 til 93 ára. Derek leggur mikið upp úr því að félagið sé virkt með fyrirlestrum, námskeiðum, samvinnu og samsýningum. „Ég hef fengið inni fyrir okkur í Gerðubergi í Breiðholti og Gjábakka í Kópavogi og þar höfum við komið saman, skipst á hugmyndum og málað.“

Mikil gæði og viðurkenningar

Íslenskir vatnslitamálarar standa mjög vel, að sögn Dereks. Til dæmis eru um 50 manns í norræna vatnslitafélaginu. Þeir sýna reglulega erlendis og íslenskir vatnslitamálarar hafa fengið viðurkenningar á alþjóðlegum sýningum. „Þegar ég kenndi fann ég að áhuginn jókst stöðugt. Oft var sagt að Íslendingar gætu ekki verið vatnslitamálarar því þeir hefðu ekki þolinmæðina sem þyrfti en þessi sýning er ágætismerki um gæðin sem eru til staðar.“

Nánar má lesa um þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert