Menntamálaráðuneyti skipi áfram í stjórn RÚV

Sagðist Lilja fagna skýrslu ríkisendurskoðunar um starfsemi Ríkisútvarpsins.
Sagðist Lilja fagna skýrslu ríkisendurskoðunar um starfsemi Ríkisútvarpsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mennta- og menningarmálaráðherra segir það ekki koma til greina að gera breytingar á fyrirkomulagi vegna skipunar í stjórn Ríkisútvarpsins.

Þetta kom fram í svari Lilju Alfreðsdóttur við fyrirspurn Þorgríms Sigmundssonar, þingmanns Miðflokksins, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.

Lilja Alfreðsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og menntamálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og menntamálaráðherra. mbl.is/​Hari

Þar velti Þorgrímur því fyrir sér hvers vegna mennta- og menningarmálaráðherra færi með eignarhluti ríkisins í félaginu í stað fjármála- og efnahagsráðherra sem að jafnaði færi með eignarhlut ríkisins í opinberum hlutafélögum í eigu þess, svo og hvers vegna það félli ekki í hlut fjármála- og efnahagsráðuneytis að skipa stjórn félagsins líkt og gert er ráð fyrir í lögum  opinber fjármál. „Þess í stað er kosið um fulltrúa á Alþingi, pólitíska fulltrúa,“ sagði Þorgrímur.

Í svari Lilju kom fram að annars staðar á Norðurlöndunum færu mennta- og menningarmálaráðuneyti með skipan í stjórn ríkisútvarpa. 

„Tel ég að það séu faglegar forsendur fyrir því þar sem starfsemi RÚV gengur út á að varðveita menningu, tungumálið og annað slíkt. Því tel ég að skipan í stjórn RÚV eigi að vera undir mennta- og menningarmálaráðuneytinu.“

Að öðru leyti sagðist Lilja fagna skýrslu ríkisendurskoðunar um starfsemi Ríkisútvarpsins og að verið væri að fara ofan í saumana á því sem þar kæmi fram og hvaða breytingar þyrfti að gera, svo sem varðandi stofnun dótturfélags, sem þegar hafi verið ákveðin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert