Óbærileg tilfinning um öryggisleysi

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Formaður Framsóknarflokksins segir tilfinningu fólks um öryggisleysi og að vera skilið eftir vera óbærilega. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, nýsköpunar og iðnaðar, segir algjörlega óviðunandi þær erfiðu aðstæður sem fólk hafi lent í vegna óveðursins sem gekk yfir landið. 

Þörf á fleiri varaaflstöðvum

„Við erum með dæmi um þar sem allt klikkaði,“ sagði Þórdís Kolbrún í Silfrinu á RÚV. Nefndi hún að sambandsleysið við umheiminn hafi verið algjört. Fólk hafi til dæmis ekki getað hringt í neyðarlínuna vegna rafmagnsleysis og RÚV hafi ekki náðst. Fólk hafi verið bjargarlaust á sínum heimilum. Hún sagði þörf á því að fjölga varaaflstöðvum. 

Hún sagði ástand þetta í ríku samfélagi eins og Íslandi vera óásættanlegt og skildi hún vel að fólk sættir sig ekki við stöðuna sem hefur verið uppi. Hún sagði stjórnvöld þurfa að rýna í það sem fór úrskeiðis og læra af þeim.

Þór og Þórdís Kolbrún í Silfrinu.
Þór og Þórdís Kolbrún í Silfrinu. Mynd/Skjáskot úr Silfrinu

Þór Þorsteinsson, formaður Landsbjargar, sagði almannavarnarkerfið vera undirfjármagnað og ekki nógu vel sinnt. „Að því leytinu til erum við heppin að ekki fór verr.“

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði sárt að sjá dýrmætt mannslíf fara í óveðrinu og átti þar við piltinn sem lést í Sölvadal. Hann sagðist vilja hrósa mörgum, þar á meðal björgunarsveitarmönnum, Vegagerðinni og veðurfræðingum.

Logi Már Einarsson.
Logi Már Einarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann sagði ekki nægan peninga fara frá stjórnvöldum í innviði og bætti við að menntakerfið og heilbrigðiskerfið séu líka veik. Þau byggi á því að ekkert fari úrskeiðis.

Kerfin þoldu ekki veðrið

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði að óveðrið hafi verið séð fyrirfram. Spárnar hafi staðist en kerfin okkar hafi ekki þolað veðrið. Hann sagði íbúa í sveitarfélögum og björgunarsveitirnar hafa staðið sig frábærlega. „Þær voru þarna eins og hetjur alls staðar.“

Sigurður Ingi sagði almannavarnarkerfið ekki vera nógu gott og að dregið hefði verið of mikið úr mannafla á landsbyggðunni.

„Þessi tilfinning um öryggisleysi og að vera skilin eftir er óbærileg og hjá alltof mörgu fólki,“ sagði hann.

Ríkisstjórnin um borð í varðskipinu Þór á Dalvík fyrir helgi. …
Ríkisstjórnin um borð í varðskipinu Þór á Dalvík fyrir helgi. Katrín Jakobsdóttir, Kristján Þór Júlíusson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Þórdís Kolbrún Reykjafjörð Gylfadóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert