Gáfu lyf með höfuðljós á enni

Þessi mynd var tekin á Hvammstanga á föstudaginn.
Þessi mynd var tekin á Hvammstanga á föstudaginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, segir að dæmi séu um að svæði á Norðurlandi vestra hafi verið algjörlega sambandslaus við umheiminn í allt að þrjátíu klukkustundir í óveðrinu sem gekk yfir landið.

„Við erum mjög heppin að það varð ekki meiriháttar óhapp eða meiriháttar slys á fólki,“ sagði Unnur Valborg í Silfrinu á RÚV og átti þar við Norðurland vestra. Bætti hún við að ekki hefði verið nokkur leið að koma skilaboðum áleiðis til að fá hjálp.

Hún heyrði dæmi um fjölskyldu í húsi þar sem hiti var komin niður í átta gráðu frost og að fólk hefði safnast saman í einu herbergi með kerti, með tilheyrandi eldhættu.

Unnur Valborg Hilmarsdóttir.
Unnur Valborg Hilmarsdóttir. Mynd/Skjáskot úr Silfrinu

Vistmenn sátu í myrkrinu 

Rafmagnið fór af á heilbrigðisstofnun Vesturlands á Hvammstanga þar sem legudeild er starfrækt. „Þar var hjúkrunarfólk að gefa lyf með höfuðljós á enni og vistmenn sátu í myrkrinu,“ sagði hún og nefndi að lýst hefði verið með rafmagnsljósum því ekkert varaafl var til staðar fyrir sjúkrahúsið.

Hún hvatti stjórnmálamenn til að gera eitthvað í málunum og sagði dapurlegt að benda á bændur sem sökudólga og að þeir stæðu í vegi fyrir að raflagnir væru lagðar.

Hún sagði fleiri landeigendur vera til en bændur og nefndi að ekki virtist vera nægilegur skilningur hjá ráðamönnum á stöðu mála. Sömuleiðis væri Norðurland vestra að berjast fyrir því að laða til sín atvinnustarfsemi og fólk vildi ekki koma á svæði þar sem raforkuöryggi væri ekki nægt.

Björgunarsveitarmaður í óveðrinu.
Björgunarsveitarmaður í óveðrinu. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is