Fá færanlegar rafstöðvar til að efla fjarskiptaöryggi

Frá afhendingu rafstöðvanna í dag.
Frá afhendingu rafstöðvanna í dag. mbl.is/Sigurður Bogi

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, færði í dag fulltrúum þrettán björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar nýjar færanlegar rafstöðvar við athöfn í húsakynnum Neyðarlínunnar á Hólmsheiði. Björgunarsveitir Landsbjargar fá allt í allt rúmlega 30 nýjar færanlegar rafstöðvar á þessu ári.

Tilgangurinn er að efla rekstraröryggi í fjarskiptum þegar óveður geysa eða hamfarir verða og tryggja eins og kostur er að hægt verði að hringja eftir aðstoð í neyð og kalla út viðbragðsaðila. Með því að fjölga færanlegum rafstöðvum og staðsetja hjá björgunarsveitum verður hægara að koma rafmagni aftur á þar sem þörf krefur og bæta þannig lífsgæði fólks, segir í tilkynningu frá Landsbjörg.

Afhending færanlegra rafstöðva markar upphaf á öðrum áfanga í átaki stjórnvalda um úrbætur á fjarskiptainnviðum eftir mikil óveður í desember 2019. Í fyrri áfanga var varaafl bætt á 68 fjarskiptastöðvum, einkum á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi. Í þeim síðari verður huga að fjarskiptastöðvum á Suðurlandi, Vesturlandi og suðvesturhorninu.

Færanlegar rafstöðvar bætast við net af föstum rafstöðvum um land allt. Þegar átakinu lýkur mun samanlagt afl allra varaaflstöðvanna nema um 2 MW. Meðalafl fastra rafstöðva er um 20 KW en í færanlegum rafstöðvum um 15 kW.

Nýtt rafstöðvarhús sett niður við fjarskiptastöð við Sjónarhóla skammt hjá …
Nýtt rafstöðvarhús sett niður við fjarskiptastöð við Sjónarhóla skammt hjá Sólheimajökli. Ljósmynd/Stjórnarráðið

„Færanlegar rafstöðvar munu þétta öryggisnet fjarskipta um land allt. Afhending þeirra er liður í stærra átaki við að stórefla öryggi í fjarskiptum. Við viljum tryggja sem best að ef fárviðri geisar eða hamfarir verða sé til staðar varaafl og nægt rafmagn. Með sameiginlegu átaki Neyðarlínunnar, Mílu og fjarskiptafyrirtækja á síðasta ári hefur grettistaki verið lyft við að bæta varaafl á fjarskiptastöðvum. Núna færum við björgunarsveitunum mikilvægan tækjabúnað til að koma rafmagni aftur á við erfiðar aðstæður. Engum er betur treystandi til þess að taka þetta verkefni að sér en sjálfboðaliðum og starfsfólki hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Árni Sæberg

„Að bæta rekstraröryggi á fjarskiptainnviðum er mikilvægt samfélagslegt verkefni sem við tökum þátt í og öxlum þannig okkar ábyrg sem hluti af almannavarnakerfinu. Færanlegar rafstöðvar eru einnig frábært verkfæri fyrir björgunarsveitir sem þurfa oft að glíma við krefjandi verkefni og munu þær nýtast vel í ýmsum aðstæðum í framtíðinni,“ segir Þór Þorsteinsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Þór Þorsteinsson formaður Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.
Þór Þorsteinsson formaður Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.
Björgunarsveitarbíll og neyðarrafstöð á kerrunni.
Björgunarsveitarbíll og neyðarrafstöð á kerrunni. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is