Mistök voru gerð við uppgjör WOW-lána VR

Hluti fyrrverandi starfsmanna WOW air hefur verið ósáttur við stéttarfélagið …
Hluti fyrrverandi starfsmanna WOW air hefur verið ósáttur við stéttarfélagið VR að undanförnu, vegna láns sem VR veitti starfsmönnum strax í kjölfar falls flugfélagsins. mbl.is/Hari

Hluti fyrrverandi starfsmanna WOW air hefur verið ósáttur við stéttarfélagið VR að undanförnu, vegna láns sem VR veitti starfsmönnum strax í kjölfar falls flugfélagsins. WOW-liðarnir fyrrverandi voru ósáttir við að VR væri að taka sér vexti fyrir lánveitinguna, eftir að hafa boðað að lánið yrði algjörlega vaxtalaust.

Pirringur fólksins reynist þó þegar upp er staðið ástæðulaus, því stéttarfélagið ætlaði sér aldrei að græða á lánveitingunni. Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR segir við mbl.is, spurður út í þetta mál, að mistök hafi verið gerð og nú sé unnið að því að leiðrétta þau. Fyrrverandi starfsfólk WOW air sem þetta snertir getur því glaðst.

VR lánaði fyrrverandi starfsmönnum WOW air að hámarki 370.000 krónur strax við fall flugfélagsins til þess að brúa bilið þar til greiðslur bærust frá ábyrgðarsjóði launa. Nú hefur hluti fólksins hið minnsta fengið greiðslu frá sjóðnum og þá var búið að draga þetta lán VR af heildarupphæðinni, auk „vaxta“ sem námu, að sögn starfsmanna sem mbl.is ræddi við, um 40 þúsund krónum væri miðað við hámarkslán.

Fólki þótti það heldur hart og einn fyrrverandi WOW-liði sem mbl.is ræddi við sagði að sennilega hefði verið ódýrara fyrir sig að taka yfirdrátt í banka.

„Þetta verður bara leiðrétt og endurgreitt“

„Það er voðalega lítið annað um þetta að segja en það að við vorum að fara í verkferla sem við höfum aldrei farið í áður, að lána félagsmönnum með þessum hætti. Þetta var mótað á innan við sólarhring þar sem það var eiginlega enginn tími til stefnu og það voru gerð mistök varðandi orðalag í samningnum,“ segir Ragnar Þór.

Þetta voru mistök sem verða leiðrétt, segir Ragnar Þór Ingólfsson, …
Þetta voru mistök sem verða leiðrétt, segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Hari

Þessi mistök, segir hann, ollu því að þegar stéttarfélagið fékk til sín greiðslur frá ábyrgðarsjóði launa og fór í að gera upp voru vextir af þeim fjármunum settir í fjárhirslur félagsins, en skiluðu sér ekki til starfsmanna.

„Þetta verður bara leiðrétt og endurgreitt,“ segir Ragnar Þór. „Við erum stéttarfélag og erum ekki að græða á félagsmönnum okkar eða hafa hag af því að lána peninga til okkar félagsmanna. Við erum búin að senda formlegt bréf til þeirra sem gerðu athugasemdir við þetta og erum að reyna að ná til annarra sem þetta snertir.“

Formaðurinn bætir því við að VR hafi frekar búið sig undir að tapa á þessari lánveitingu til félagsmanna sinna, ef svo færi að kröfur VR fengjust ekki greiddar úr þrotabúi flugfélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert