Árni Heimir bæjarlistamaður Seltjarnarness

Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarmaður og tónlistarfræðingur, er bæjarlistamaður Seltjarnarness 2020.
Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarmaður og tónlistarfræðingur, er bæjarlistamaður Seltjarnarness 2020. Ljósmynd/Aðsend

Í gær, þriðjudaginn 28. janúar, var Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarmaður og tónlistarfræðingur, útnefndur bæjarlistamaður Seltjarnarness 2020 við hátíðlega athöfn á Bókasafni Seltjarnarness. Árni Heimir er 24. bæjarlistamaðurinn á Seltjarnarnesi til að hljóta þessa heiðursnafnbót.

Í heiðursathöfninni veitti Guðrún Jónsdóttir, formaður menningarnefndar, Árna Heimi viðurkenningarskjal ásamt starfsstyrk að upphæð 1.000.000 kr. sem fylgir nafnbótinni.

Árni Heimir hefur starfað að tónlistarmálum með margvíslegum hætti, sem tónlistarfræðingur, kennari, píanóleikari, kórstjóri og sem listrænn ráðgjafi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hann stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og Menntaskólann við Hamrahlíð, lauk BM-námi í píanóleik frá Oberlin-tónlistarháskólanum árið 1997 og doktorsprófi í tónlistarfræði frá Harvard-háskóla árið 2003.

Árni Heimir var dósent við tónlistardeild Listaháskóla Íslands 2005–2007 og síðar gestaprófessor við sama skóla, en árið 2007 hóf hann störf hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands, fyrst sem tónlistarstjóri og síðar sem listrænn ráðgjafi. Meðfram öðrum störfum sínum er Árni Heimir nú einnig gestafræðimaður við Yale-háskólann í Bandaríkjunum.

Árni Heimir hefur gefið út þrjár bækur um tónlist á íslensku, og kom hin nýjasta út í lok síðasta árs: Tónlist liðinna alda, íslensk handrit 1100 –1800. Fyrir skömmu kom einnig út eftir hann í Bandaríkjunum bókin Jón Leifs and the Musical Invention of Iceland.

Árni Heimir hefur staðið að útgáfu þriggja geisladiska með tónlist úr fornum íslenskum handritum, og hlutu tveir þeirra Íslensku tónlistarverðlaunin sem diskur ársins í klassískri tónlist, Melódía árið 2008 og Hymnodia sacra árið 2011.

Þá hefur hann tvívegis verið tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Árni Heimir hefur komið fram á tónleikum víða í Evrópu og Bandaríkjunum, sem píanóleikari, semballeikari og kórstjóri. Hann hefur skrifað fjölda fræðigreina um íslenska tónlist og haldið fyrirlestra á ráðstefnum víða um heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert