Almenningssamgöngur milli byggða tryggðar

Einnig verður Isavia bætt tekjutap á innanlandsflugvöllum.
Einnig verður Isavia bætt tekjutap á innanlandsflugvöllum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur tryggt almenningssamgöngur milli byggða með auknum fjárveitingum.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. Þar segir að aukinn stuðningur sé nauðsynlegur til að bæta rekstraraðilum almenningssamgangna upp tekjutap í kjölfar Covid-19-faraldursins.

Stuðningurinn nær til þjónustu sem nýtur þegar styrkja frá ríkinu, en um er að ræða siglingar Herjólfs, flug Ernis og Norlandair og akstur almenningsvagna milli byggða. Einnig verður Isavia bætt tekjutap á innanlandsflugvöllum og ferðir Baldurs um Breiðafjörð tryggðar í sumar. 

„Það liggur fyrir að rekstrargrundvöllurinn er brostinn. Það stefndi bara í algjört óefni. Það var að mínu mati óhjákvæmilegt að bregðast við ástandinu. Það eru margir sem treysta alveg á þessa þjónustu og svo eru landsmenn að leggja af stað inn í frábært ferðasumar innanlands. Þessir hlutir verða bara að vera í lagi,“ er haft eftir Sigurði Inga í tilkynningu.

„Það er afskaplega mikilvægt að viðhalda öflugum almenningssamgöngum fyrir almenning og atvinnulíf um land allt. Raunar má telja að mikilvægi þeirra aukist enn frekar í framhaldi af faraldrinum og að fleiri muni kjósa að nýta sér þjónustu almenningsvagna, ferja og flug á ferðum sínum.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert