Samþykkt að greiða laun á uppsagnarfresti

Frumvörpin voru samþykkt seint í gærkvöldi.
Frumvörpin voru samþykkt seint í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alþingi samþykkti í gærkvöldi frumvörp ríkisstjórnarinnar um greiðslu launa á uppsagnarfresti. Frumvarp um að framlengja hlutabótaleiðina var einnig samþykkt en skilyrði til að nýta sér hana voru hert.

Frumvarp um greiðslu hluta launa á uppsagnarfresti tók miklum breytingum frá því það var fyrst tekið til meðferðar í efnahags- og viðskiptanefnd.

Þingmenn í stjórnarandstöðu gagnrýndu frumvarpið í þingsal í gær og töldu margir að það skapi hvata fyrir fyrirtæki til að segja upp fólki. Drífa Snædal, forseti ASÍ, hafði sagt að yrðu frumvörpin samþykkt í óbreyttri mynd gæti það leitt til mestu kjaraskerðingar síðari tíma.

Tekið var tillit til gagnrýninnar að hluta til í efnahags- og viðskiptanefnd og var því meðal annars breytt þannig að starfsmönnum eru nú tryggð sömu launakjör, komi til endurráðningar innan sex mánaða, þ.e. þeir eru ráðnir inn samkvæmt ráðningarsamningi en ekki kjarasamningi. Þá njóta þeir forgangs að sambærilegu starfi í allt að tólf mánuði.

Samkvæmt frumvarpi fjármálaráðherra til fjáraukalaga er gert ráð fyrir því að kostnaður vegna úrræðisins verði 27 milljarðar króna. Þar er gert ráð fyrir því að hlutabótaleiðin muni á endanum kosta 34 milljarða króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert