Sigurður Ingi vígði Vesturbrú

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra fékk að ríða með knöpum úr …
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra fékk að ríða með knöpum úr hestamannafélaginu Létti yfir brúna eftir vígslu. mbl.is/Þorgeir

Nýja göngu-, hjóla- og reiðbrúin yfir Eyjafjarðará var formlega vígð í kvöld við hátíðlega athöfn af Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Við sama tækifæri var það tilkynnt að brúin fengi nafnið Vesturbrú.

mbl.is/Þorgeir

Knapar úr hestamannafélaginu Létti og Sigurður Ingi hófu athöfnina í dag með hópreið að brúnni undir söng Karlakórs Eyjafjarðar. Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrarbæjar, flutti stutt ávarp við vígsluna og tilkynnti um val dómnefndar á nafni brúarinnar.

mbl.is/Þorgeir

Næst klippti Sigurður Ingi á borða með aðstoð ungrar hestakonu úr Létti áður en allur hópurinn fór yfir Vesturbrú í fyrsta skipti. Fulltrúar úr ýmsum hópum sem eiga það sameiginlegt að stunda útivist á svæðinu voru samankomnir að því er segir á vef Akureyrarbæjar.

mbl.is/Þorgeir

Vesturbrú leysir af hólmi gamla brú sem færa þurfti vegna uppsetningar á aðflugsbúnaði fyrir Akureyrarflugvöll. Framkvæmdir hófust á síðari hluta síðasta árs og gengu vel. Vesturbrú er 60 metra löng stálbrú með þriggja metra breiðu timburgólfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert