Suðurnesin „Íslandsmeistarar í breytingastjórnun“

Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar.
Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar.

Sveitarfélög á Suðurnesjum og fyrirtæki á svæðinu skrifuðu í dag undir viljayfirlýsingu um að koma á fót svokölluðum hringrásargarði á Suðurnesjum.

Í Hringrásargarðinum munu aðilar „leitast við að deila, selja og/eða kaupa aukaafurðir vegna starfsemi sinnar“ eins og það er orðað í viljayfirlýsingunni. Undir hana skrifa Isavia, Íslenska gámafélagið, HS Orka, BM Vallá, KADECO, Hornsteinn, Terra, Iðunn H2 og Carbon recycling, Pure North Recycling og Kalda ásamt Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum. Garðurinn er unnin að fyrirmynd Auðlindagarðsins í Svartsengi sem er undir forystu HS Orku.

Karl Eðvaldsson kynnti hugmynd um sorporkustöð á kynningarfundi um sjálfbæra …
Karl Eðvaldsson kynnti hugmynd um sorporkustöð á kynningarfundi um sjálfbæra framtíð Suðurnesja. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einn hluti slíks garðs gæti verið sorporkustöð þar sem úrgangur væri endurnýttur. Karl Eðvaldsson, framkvæmdastjóri ReSource International, kynnti hugmyndina á fundinum í dag, sem haldinn var til að kynna afrakstur Suðurnesjavettavangsins.

Suðurnesjavettvangur er heiti á samvinnu sveitarfélaganna fjögurra á Suðurnesjum, Isavia, Kadeco og Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum um innleiðingu Heimsmarkmiðanna, eflingu atvinulífs og styrkingu innviða svæðisins í átt að sjálfbærri framtíð.

Samningurinn var undirritaður af sveitarfélögum og fyrirtækjum á svæðinu.
Samningurinn var undirritaður af sveitarfélögum og fyrirtækjum á svæðinu.

Tekist á við náttúruhamfarir, heimsfaraldur og efnahagsleg áföll

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði við tilefnið að Suðurnesin væru Íslandsmeistarar í breytingastjórnun.

„Ég held að það séu ofboðsleg tækifæri í því hvernig Suðurnesin hafa verið að vinna sig í gegnum þetta ofboðslega erfiða ástand,“ sagði Katrín. „Ég hugsa að Suðurnesin séu jafnvel Íslandsmeistarar í breytingastjórnun.“  

Kynningarfundur um sjálfbæra framtíð Suðurnesja.
Kynningarfundur um sjálfbæra framtíð Suðurnesja. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég kom fljúgandi yfir í gær komandi frá Brussel. Við horfðum á eldgosið sem var náttúrulega magnað. Svo lentum við og það er búið að umbreyta flugvellinum útaf sóttvarnaráðstöfunum og búið að gera það nokkrum sinnum. Það gekk allt eins og smurð vél. Þetta tekur jú tíma en allir eru búnir að vera að ganga í öll störf og gera hlutina öðruvísi og gera þá upp á nýtt og breyta til þegar eitthvað nýtt gerist. Mér finnst þetta eiginlega alveg magnað. Ég held að þetta sé líka saga sem þarf að segja, af þessum fimmtán mánuðum, hvernig í raun og veru þetta svæði, sem er viðkvæmt fyrir vegna þessa mikla vægis flugrekstrarins, er búið að taka utan um það að geta tekist á við nýjar og óvæntar aðstæður,“ sagði hún.  

„Flugvöllurinn er bara eitt dæmi um það hvernig hefur verið tekist á við náttúruhamfarir, heimsfaraldur og efnahagsleg áföll.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert