„Það er slóð, við skulum orða það þannig“

Reynir segist vera með nokkrar fréttir í vinnslu en stígi …
Reynir segist vera með nokkrar fréttir í vinnslu en stígi varlega til jarðar. mbl.is/Ómar

Vefur Mannlífs er nú kominn aftur upp eftir að skemmdarverk var unnið á honum í nótt og öllu fréttaefni eytt þaðan út. Tekist hefur að endurheimta meirihluta af því efni sem eytt var, en enn vantar þó síðustu fimm eða sex daga. Óvíst er hvort hægt verði að endurheimta það efni. Þetta segir Reynir Traustason, ritstjóri Mannlífs, í samtali við mbl.is.

„Þeir eru búnir að vinna þrekvirki, strákarnir hjá Kaktus, að bjarga þessu,“ segir Reynir, en Kaktus er hýsingaraðili vefsins. „Nú bara bíðum við bara eftir því að náð verði í ljótu kallana,“ bætir hann við og er vongóður um að takist að hafa hendur í hári þrjótanna fyrr en síðar. „Það er slóð, við skulum orða það þannig.“

Brotist var inn í bíl Reynis á bílastæði við Úlfarsfell í gær og þaðan stolið lyklum af ritstjórnarskrifstofu Mannllífs. Í kjölfarið var farið á skrifstofuna, tveimur tölvum stolið og öllu eytt út af vefnum nema auglýsingum. mbl.is greindi fyrst frá málinu í morgun.

Stíga rólega og létt til jarðar

Reynir taldi í fyrstu að eingöngu væri um að ræða innbrot í bíl hans enda var ýmislegt tekið, til að mynda gps-tæki, hundabúr og fleira. Hann áttaði sig ekki á alvarleika málsins fyrr en hann mætti á skrifstofuna í morgun. Þá varð honum ljóst að um skipulagt rán var að ræða.

Segist hann hafa setið undir hótunum síðustu daga og gerð hafi verið krafa um að hann afhenti ákveðin gögn. Hvort málin tengist getur hann þó ekki fullyrt, en hann hefur sínar grunsemdir um hverjir voru að verki.

„Nú stígum við við bara rólega og létt til jarðar. Við erum með nokkrar fréttir af einhverjum í pípunum, en við bara róum okkur aðeins og reynum að koma skikki á vefinn,“ segir Reynir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert