„Hvað eru 15 ára ungmenni að gera með hnífa?“

Móðirin segir mikinn viðbúnað hafa verið vegna árásarinnar.
Móðirin segir mikinn viðbúnað hafa verið vegna árásarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta fór eins vel og það gat farið, en það á svo eftir að klára að vinna úr þessu,“ segir móðir 17 ára drengs sem varð fyrir stunguárás við Miðgarð í Grafarvogi á miðvikudagskvöld.

15 ára drengur stakk hann í síðuna eftir að hafa áður lamið hann og reynt að ráðast á eldri bróður hans. Móðirin segir engan aðdraganda hafa verið að árásinni sem hafi verið tilefnislaus með öllu.

„Hann var renna sér á hjólabretti og stoppar til að reima skóinn sinn. Þá koma þessir strákar og voru að atast í honum. Hann hringdi í eldri bróður sinn sem var ekki langt undan og hann kom á staðinn.“

Hefði getað skaddað líffæri

Hún segir þá hafa byrjað á því að ráðast á eldri bróðurinn og berja hann, en hann hafi náð að halda þeim frá sér. „Svo byrja þeir að hlaupa á hinn og allt í einu sér hann útundan sér að strákurinn fer í vasann, nær í eitthvað og stingur hann í síðuna.“

Læknirinn sem tók á móti þeim á bráðamóttökunni gaf þeim þær upplýsingar að stungusárið væri um fimm sentimetra djúpt. „Ef drengurinn hefði ekki verið með aukakíló utan á sér þá hefði þetta getað skemmt líffæri. Þannig þetta er mjög alvarlegt,“ segir móðirin.

Árásarmennirnir flúðu af vettvangi en hún segir lögregluna hafa verið fljóta að finna þá og handtaka. Það hafi verið ljóst að lögreglan vissi hverja um var að ræða og hvar þá mætti finna.

Mikill viðbúnaður var vegna árásarinnar og segist móðirin hafa talið átta lögreglumenn og tvo sjúkrabíla, en sonur hennar var fluttur á með sjúkrabíl á spítala þar sem gert var að sárinu. Hann dvaldi svo á spítalanum um nóttina og frameftir næsta degi.

Telur árásina óbeint tengjast einelti

Móðirin segir son sinn ekki þekkja strákana sem réðust á hann, en hann viti hverjir þeir eru. „Það er engin bein tenging á milli þeirra.“

Hún segir þetta þó vera stráka sem hafi verið að pota í og senda syni hennar augnaráð, en hann varð fyrir miklu einelti þegar hann var í grunnskóla.

Þó ekki hafi verið skýr aðdragandi að árásinni á miðvikudag, telur móðirin málið eiga sér lengri aðdraganda og dýpri rætur sem tengist eineltinu.

„Í ágúst 2019 var sonur okkar plataður út á skólalóð og þegar hann kom þangað í fótbolta þá biðu fjórir eftir honum og hann var settur í götuna. Þetta gerðist ekki á skólatíma þannig skólinn gerði ekki neitt. Með því að gera ekki neitt þá er þessi ósýnilegi þráður til staðar sem gefur til kynna að þetta sé í lagi,“ útskýrir móðirin. Þannig sé búið að leggja grunninn að frekara ofbeldi.

„Ég held að þetta tengist þessum ósýnlega þræði sem gefur til kynna að þarna sé einhver sem hægt sé að böggast í af því það urðu ekki afleiðingar af hinu.“

Málin tengist því með óbeinum hætti. Sonur hennar hafi verið ákveðið skotmark og sé það enn.

Sonurinn upplifir sig ekki öruggan

Hún segir foreldrunum hafa verið mjög brugðið vegna árásarinnar, þó þau séu ýmsu vön. „Ég hélt ég væri búin með allan pakkann. Hvað eru 15 ára ungmenni að gera með hnífa á sér? Hvar erum við stödd í dag varðandi öryggi ungmenna?“

Sonur hennar er mjög hvekktur og upplifir sig ekki öruggan, en hún segir þau hafa virkjað öryggisnet í kringum hann.

Þá er hún mjög ánægð með að skólastjórinn í Borgarholtsskóla, þar sem sonurinn stundar nám, hafi sett sig í samband við hana og spurt hvort eitthvað væri hægt að aðstoða. Skólinn sé því meðvitaður um málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert