Svakalegar upphæðir sem fjölmiðlar missa í tekjur

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður BÍ, segir samfélagssátt um fjölmiðla nauðsynlega.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður BÍ, segir samfélagssátt um fjölmiðla nauðsynlega. Ljósmynd/Aðsend

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, segist hvergi hafa séð tölur í líkingu við þær sem Hagstofa Íslands gaf út í gær þar sem segir að tæplega helmingur þess fjár sem var varið til birtingar auglýsinga á síðasta ári hafi runnið til erlendra miðla.

„Okkur finnst þetta vera grafalvarleg staða og sýnir það sem við höfum verið að benda á undanfarin ár, hversu mikið rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi hefur versnað til muna,“ segir Sigríður Dögg í samtali við mbl.is.

„Þó við sjáum að þetta er alþjóðleg þróun þá hef ég hvergi séð tölur í líkingu við þetta, önnur hver króna að fara úr landi. Þetta eru svakalegar upphæðir sem við fjölmiðlar erum að missa af í tekjur og fyrir vikið verður reksturinn allur miklu meira krefjandi,“ segir Sigríður.

„Nú sem aldrei fyrr er þörf á ákveðinni samfélagssátt um fjölmiðla. Við viljum hafa fjölmiðla vegna þess að við vitum hvers vegna þeir eru mikilvægir. Við viljum hafa lýðræði og ef við viljum lýðræði þá verðum við að hafa fjölmiðla sem virka.“

Meiri peningur til stjórnmálaflokka en fjölmiðla

Sigríður Dögg segir almenning og fyrirtæki þurfa að sýna vilja í verki og kaupa áskriftir og auglýsa hjá íslenskum fjölmiðlum. Ábyrgð stjórnvalda sé þó mikil.

„Stjórnvöld þurfa að fara að dusta rykið af aðgerðum sem eru búnar að liggja á borði ráðherra fjölmiðla frá árinu 2018,“ segir Sigríður.

Hún segir nágrannalönd Íslands hafa gert margt til þess að aðstoða þarlenda fjölmiðla og nefnir skattaívilnanir, afslátt á ýmsum gjöldum og aukna styrki. Hins vegar geri íslenska ríkið of lítið.

Hlægilega lágir styrkir samþykktir

„Það munar ofboðslega mikið um þessa styrki sem nú er sem betur fer búið að samþykkja fyrir næstu tvö ár. Ég vil ekki hljóma vanþakklát en upphæðirnar eru í rauninni hlægilega lágar,“ segir Sigríður.

Til samanburðar bendir Sigríður á hvað það eru háar upphæðir sem eru að fara beint til stjórnmálaflokkanna sjálfra:

„Tæplega 800 milljónir frá ríkissjóði í þágu lýðræðisins. Að þau geti ekki sett jafn háa upphæð til einkarekinna fjölmiðla í þágu lýðræðisins, þá held ég að þeim sé ekki í raun alvara með þessar aðgerðir.“

Erlendu miðlarnir ekki skattlagðir

Sigríður segir styrkina ekki einu sinni hafa hækkað í takti við verðlagsþróun, frekar hitt, að það sé aðhaldskrafa.

„Þetta er bara fáránlegt. Það vantar tíu milljarða inn í fjölmiðlakerfið sem eru að fara til útlanda. Þessir erlendu samfélagsmiðlar og tæknirisar eru ekki einu sinni skattlagðir. Það liggja milljarðar í skattlagningu þessara erlendu miðla sem væri eðlilegt að láta renna beint til einkarekinna fjölmiðla. Við þurfum að byrja á því strax, þetta getur ekki verið svona flókið,“ segir Sigríður.

„Þetta er skammarlegt að við skulum ekki meta hlutverk fjölmiðla meira en við virðumst gera. Stjórnmálamenn geta á tyllidögum reitt sig á fjölmiðla þegar þeim hentar en þegar kemur að því að þurfa raunverulega að standa við bakið á þeim þá sér maður undir iljarnar á þeim.“

Sigríður segir marga stjórnmálamenn líta á fjölmiðlarekstur eins og hvern annan atvinnurekstur og séu í prinsippinu mótfallnir því að stjórnvöld eigi að stíga inn í reksturinn með nokkrum hætti.

„Hvergi annars staðar í löndunum í kringum okkur er þessi skilningur á fjölmiðlum. Fjölmiðlar eru ekkert eins og hver annar rekstur. Þetta eru fyrirtæki sem gegna lykilhlutverki í því að hér sé hægt að halda úti lýðræðislegri umræðu.“

Snýst líka um að vernda íslenskuna

„Við búum í pínulitlu málumhverfi, það eru 350 þúsund manns sem tala þetta tungumál og við erum að keppa við milljarða tungumál eins og ensku,“ segir Sigríður Dögg.

Hún segir samkeppnisstöðu íslenskra miðla vera skakka og bara á þeim forsendum sé auðvelt að réttlæta það að stjórnvöld styðji við fjölmiðla með miklu mynduglegri hætti heldur en þau hafa gert.

„Við erum líka að tala um að vernda tungumálið okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert