Segir brotthvarf Fréttablaðsins sorglegt

Lilja Dögg Alfreðsdóttir kveður brotthvarf Fréttablaðsins sorglegt og segir íslensk …
Lilja Dögg Alfreðsdóttir kveður brotthvarf Fréttablaðsins sorglegt og segir íslensk stjórnvöld vinna að lausn á rekstrarvanda íslenskra fjölmiðla einkarekinna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er auðvitað sorglegt þegar stór miðill eins og Fréttablaðið hættir störfum. Þarna eru tugir fjölmiðlafólks, ef ekki hundrað manns, sem missa vinnuna og slíkt er auðvitað sorgardagur út af fyrir sig,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, í samtali við mbl.is um brotthvarf Fréttablaðsins af íslenskum fjölmiðlamarkaði í dag.

„Viðfangsefni dagsins í dag er að markaðsbrestur hefur átt sér stað á fjölmiðlamarkaði eftir að stóru efnisveiturnar komu inn. Við vinnum að því núna – og höfum verið að vinna að því í alþjóðlegu samstarfi – að ná utan um þær,“ heldur ráðherra áfram og bætir því við að þar sé ekki á ferð áskorun sem íslenskir fjölmiðlar horfist einir í augu við.

„Í Svíþjóð fara 73 prósent af öllum auglýsingatekjum í þessar veitur og á Íslandi er það hlutfall 45 prósent. Alls staðar er verið að keppast við að reyna að ná utan um þetta og reyna tímabundið að sporna við þessum markaðsbresti því allir vilja hafa öfluga innlenda fjölmiðla og þess vegna er gríðarlega mikilvægt að við náum utan um þetta,“ segir Lilja.

Skattlagning á streymið og niðurstaða um RÚV

Íslensk stjórnvöld vinni málið meðal annars á vettvangi Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, OECD, þar sem skattlagning á streymisveitur sé meðal annars til umræðu og hluti þess fjár sem þar yrði til gengi þá til innlendra miðla.

„Auk þess hef ég vaxandi trú á því að áskriftir að fjölmiðlum eigi eftir að aukast verulega. Það sjáum við til dæmis hjá New York Times þar sem tekjumódelið hefur breyst gríðarlega að því leyti að auglýsingatekjur hafa minnkað en áskrift aukist verulega. Þannig held ég að þróunin verði í ríkari mæli og nú var til dæmis tilkynnt um það í fimm ára ríkisfjármálaáætlun að við ætlum að verja tæpum tveimur milljörðum á tímabilinu, í formi skattalegra ívilnana, í að styðja við fjölmiðlana,“ segir hún.

Hvað með ríkisútvarpið og veru þess á fjárlögum og auglýsingamarkaði samtímis? Ráðherra ræddi í viðtali hér á mbl.is í gær að stefnan væri að taka RÚV af því síðarnefnda. Hver er tímaramminn þar?

„Við verðum komin með útfærslu á því fyrir næstu fjárlög,“ svarar Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert