Var einn með barninu í 4-6 mínútur

Mosfellsdalur.
Mosfellsdalur. mbl.is/Árni Sæberg

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (GEV) telur að alvarlegur og margþættur misbrestur hafi leitt til þess að fatlað barn var beitt kynferðislegu ofbeldi af hálfu þroskaskerts starfsmanns í sumarbúðum Samtaka fatlaðra og lamaðra í Reykjadal í Mosfellsbæ í fyrra.

Atvikið átti sér stað 9. ágúst og er gerandi þroskaskertur starfsmaður í verndaðri vinnu í Reykjadal á vegum ÁSS styrktarfélags. Starfssvæði hans var að mestu utandyra við garðvinnu en einnig er hann sagður hafa aðstoðað í matsal.

Alvarlegt óvænt atvik 

Í skýrslunni um málið segir að hið alvarlega óvænta atvik hafi átt sér stað á meðan starfsfólk var aðstoða ungmenni og börn við að ganga frá eigum sínum við heimför. Var verið að aðstoða brotaþola þegar starfsmaður sá eigur annars barns inni í herberginu og fór með þær til að skila þeim. Var starfsmaðurinn því ekki inni í herberginu í fjórar til sex mínútur. Á þeim tíma fór þroskaskerti starfsmaðurinn inn í herbergi barnsins og lokaði að sér.

Annar starfsmaður tók þá eftir því að hurðin var lokuð en slíkt er óheimilt í búðunum. Hann bankaði, gekk inn og kom þar að manninum og barninu inni í herbergi. Barnið tjáði strax um að maðurinn hefði snert einkastaði sína sem voru brjóst og kynfæri.

Móðir hafði samband við lögreglu 

Úr varð að málið var kynnt ýmsum fagaðilum og móður barnsins. Manninum var ekið til síns heima áður en lögregla kom á staðinn. Var atvikið í ekki tilkynnt lögreglu fyrr en móðir barnsins hafði samband við lögreglu í gegnum Neyðarlínuna síðar sama dag. GEV var hins vegar ekki tilkynnt um atvikið fyrr en þremur dögum síðar eða 12. ágúst. 

Aðkoma GEV snýst ekki um að rannsaka refsiverða háttsemi né heldur að leiða í ljós ábyrgð einstaklinga í málinu. Hins vegar er tilgangurinn að fara yfir verklag þegar upp koma slík atvik. 

Margþættur og alvarlegur misbrestur

Í niðurstöðum skýrslunnar voru settar fram tillögur um úrbætur til að koma í veg fyrir að slíkt atvik endurtaki sig sem og að brýna verklag ef upp koma slík atvik. 

„Með hliðsjón af þeim gögnum og upplýsingum sem aflað var við rannsókn á atvikinu verður ekki annað séð en að skýring þess að umrætt atvik átti sér stað er að margþættur og alvarlegur misbrestur varð í starfsemi Reykjadals þegar bæði barnið og umræddur starfsmaður voru án eftirlits starfsmanna í skamma stund á heimfarardegi þann 9. ágúst 2022", segir í skýrslunni. 

Keyrður heim áður en lögregla kom 

Þá er m.a. gerð athugasemd við það þroskaskerta starfsmanninum hafi verið ekið heim í stað þess að bíða eftir aðkomu lögreglu. 

Þá segir að „viðbrögð stjórnenda Reykjadals hafi verið „ ómarkviss og einkennst af þekkingarleysi en t.a.m. hafi fyrst verið haft samband við hina ýmsu aðila til að fá leiðbeiningar um hvað ætti að gera þegar fatlaðir einstaklingar eigi í hlut, í stað þess að hafa tafarlaust samband við lögreglu, foreldra barns og barnavernd.“

Í ljósi þess hve alvarlegur misbrestur varð á fyrstu viðbrögðum starfamanna og stjórnenda er það metið af hálfu GEV sem svo að fullt tilefni sé til að hefja frumkvæðiseftirlit til að tryggja gæði þjónustunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert