Fimm snjóflóð fallið á Vestfjörðum

Snæviþakin fjöll. Mynd úr safni.
Snæviþakin fjöll. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fimm tilkynningar hafa borist um snjóflóð á Vestfjörðum síðasta sólarhringinn og ein tilkynning af Norðausturlandi. Enn er í gildi óvissustig vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum. 

Harpa Grímsdóttir á ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands segir í samtali við mbl.is að öll flóðin sem hafa fallið síðasta sólarhring hafi verið minniháttar og hvorki fallið yfir vegi né í byggð. 

Hún segir að minna hafi orðið úrkomunni en útlit var fyrir á laugardag, er óvissustiginu var lýst yfir. 

„Það var metið þannig að það gæti skapast hætta í þessu veðri sem var, en síðan hefur orðið minna úr veðrinu kannski heldur en spáin gaf til kynna,“ segir Harpa.

Á morgun er metin töluverð hætta á snjóflóðum á norðanverðum Vestfjörðum, en ekki mikil hætta líkt og hefur verið síðustu daga. 

Snjóflóðin sem hafa fallið urðu utan við Flateyri, í Súgandafirði, Ytri-Kirkjubólshlíð í Ísafirði og á Patreksfirði. Skíðamenn settu síðan af stað flekaflóð í Karlsárfjalli nærri Dalvík í gær. 

Misvísandi spár

Harpa segir að snjókoma gæti aukist í kvöld og í nótt en að dregið hafi aðeins úr vindi. 

„Svo ætti nú að koma einhver pása í þetta. En það eru aðeins misvísandi spár, eins og fyrir morgundaginn,“ segir hún.

Á Vestfjörðum er appelsínugul veðurviðvörun í gildi til klukkan sex í fyrramálið. Gul viðvörun er síðan í gildi til miðnættis annað kvöld. 

Harpa segir að Veðurstofan fylgist vel með og hvetur fólk að fylgjast með færð og spám hjá Vegagerðinni og Veðurstofunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert