Veggjalús í Landmannalaugum

Veggjalús hefur komið upp í tveimur skálum Ferðafélags Íslands á …
Veggjalús hefur komið upp í tveimur skálum Ferðafélags Íslands á skömmum tíma. Samsett mynd/Sigurður Bogi/AFP

Hinn hvimleiði skaðvaldur veggjalús hefur fundist í skála í Landmannalaugum. Er hann því annar skáli Ferðafélags Íslands sem veggjalús hefur borist í á skömmum tíma.

Umsjónarmaður fasteignanna segir farið í aðgerðir til að reyna að eyða lúsinni um leið og færi gefst.

Að sögn Stefáns fékkst einnig staðfest í vetur að veggjalús hefði fundist í Skagfjörðsskála í Langadal í Þórsmörk. 

„Við höfum brugðist við því og erum að vinna í því að allt verði hreint áður en vertíðin byrjar þar í sumar. Eins höfum við verið á leiðinni inn eftir í Landmannalaugar með meindýraeyði en vegna veðurfars, krapa og færðar höfum við ekki komist til að vinna á þessari pöddu,“ segir Stefán. 

Stefán Jökull Jakobsson er umsjónarmaður fasteigna hjá FÍ.
Stefán Jökull Jakobsson er umsjónarmaður fasteigna hjá FÍ.

Hann segir veggjalúsafaraldur víða í Evrópu og nefnir Frakkland og Belgíu sérstaklega í því samhengi.

Síðasta haust var tilkynnt um mikinn faraldur í París. Meðal annars þurfti að loka neðjanjarðarlestarkerfinu að hluta. 

Landlægur vandi 

„Þetta er alls staðar á öllu Suðurlandi, öllum gistiheimilum og hótelum en það er lítið talað um það. Þetta er orðinn landlægur vandi. Hann kemur upp eins og höfuðlúsin öll haust. Þannig að við erum með viðbragðsáætlun í gangi og tökum á þessu um leið og færð leyfir,“ segir Stefán. 

Að sögn Stefáns fannst veggjalúsin á afmörkuðu svæði í skálanum í Landmannalaugum. Til stendur að eitra allt húsið til að undirbúa sem best ferðamannasumarið. Hann segir að ekki verði komist að skálanum fyrr en um páska vegna veðuraðstæðna. 

„Maður getur ekki neitað útlendingum um að koma en það þarf að vera í gangi viðbragðsáætlun ef þetta kemur upp. Starfsfólki er kennt að sjá hvernig ummerki eru um þetta og við erum með enn stífara þrifprógram til að taka á þessu áður en þetta verður að meira veseni,“ segir Stefán. 

Margar vinsælar gönguleiðir liggja frá Landmannalaugum.
Margar vinsælar gönguleiðir liggja frá Landmannalaugum. mbl.is/Brynjar Gauti

Eggin meira vandamál 

Hann segir ýmsum úrræðum beitt til að losna við lúsina. Ein aðferðin er að kynda hús upp í 50 gráður en hin er að frysta húsnæði. Flest hús á hálendinu eru ókynt og því lítið mál að frysta þau. Skálinn í Landmannalaugum er hins vegar kyntur með heitu vatni.

„Þá þurfum við að fara inn með frystiefni og sprauta því á viss svæði og svo er eitrað líka. Það er í raun ekki svo mikið mál að losna við lúsina en það eru eggin sem eru vandamál og það þarf að fara í vissar aðgerðir til að drepa eggin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert