Aðalfundi Landsbankans frestað um mánuð

Ákveðið hefur verið að fresta aðalfundi Landsbankans.
Ákveðið hefur verið að fresta aðalfundi Landsbankans. mbl.is/sisi

Bankaráð Landsbankans ákvað í dag að fresta aðalfundi bankans sem halda átti á morgun til föstudagsins 19. apríl. Þetta var ákveðið á fundi bankaráðs í dag. Varð bankaráðið þar með við beiðni Bankasýslunnar sem hafði krafist þess að aðalfundinum yrði frestað.

Greint er frá ákvörðuninni í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Málefni Landsbankans hafa orðið að pólitísku hitamáli eftir að greint var frá fyrirhuguðum kaupum Landsbankans á tryggingafélaginu TM.

Fjármálaráðherra lagðist gegn áformunum

Um helgina var greint frá því að Kvika hefði samþykkt tilboð Landsbankans í tryggingafélagið. Þór­dís Kol­brún R. Gylfa­dótt­ir fjár­málaráðherra gaf strax út að viðskiptin yrðu ekki að veruleika með hennar samþykki nema söluferli Landsbankans myndi hefjast samhliða. Óskaði hún jafnframt skýringa Bankasýslu ríkisins á þessu.

Lilja Björk Ein­ars­dótt­ir, banka­stjóri Lands­bank­ans, sagði í gær að kaup bank­ans á trygg­inga­fé­lag­inu vera til þess að viðhalda verðmæti bank­ans og til haga fyr­ir eig­end­ur bank­ans, sem að lang stærst­um hluta er ríkið. Sagði hún að bankinn myndi halda áfram með kaupin, þrátt fyrir gagnrýni Þórdísar.

Bankasýslan tekur undir áhyggjur ráðherra og vildi fresta fundi

Bankasýslan fundaði í gær með bankaráði Landsbankans vegna málinu og sendi í kjölfarið frá sér bréf stofnunarinnar bæði til ráðherra og opinbert bréf. Kom þar fram að Bankasýslunni hefði verið alls ókunn­ugt um viðskipt­in og að stofn­un­in taki und­ir áhyggj­ur Þór­dís­ar. 

Seg­ir í bréf­inu að Banka­sýsl­an hafi hvorki fengið upp­lýs­ing­ar um fyr­i­r­áætlan­ir Lands­bank­ans að leggja fram skuld­bind­andi til­boð, né um að til­boðið hafi verið lagt fram. „Held­ur var ein­ung­is upp­lýst um þegar skuld­bind­andi til­boð var tekið um kl. 17 þann 17. mars sl.“

Í bréf­inu til bankaráðsins lýs­ti Bankasýslan von­brigðum með ákv­arðana­töku og upp­lýs­inga­gjöf bankaráðs Lands­bank­ans, varðandi kaupin. Var tekið fram að Lands­bank­an­um beri án taf­ar að upp­lýsa hlut­hafa um öll mik­il­væg mál sem upp kunni að koma, eða eru ákveðin af bank­an­um, og geti haft af­ger­andi áhrif á rekst­ur hans og efna­hag, sam­kvæmt samn­ingi milli Banka­sýsl­unn­ar og stjórn­ar bank­ans frá ár­inu 2010.

„Það er mat BR að til­boð Lands­bank­ans í 100% eign­ar­hlut TM sé þess eðlis að Lands­bank­an­um hafi borið að upp­lýsa BR um það með skýr­um og form­leg­um hætti og með eðli­leg­um fyr­ir­vara,“ seg­ir í bréf­inu.

„Þar sem það var ekki gert ósk­ar BR eft­ir því að bankaráð Lands­bank­ans skili stofn­un­inni grein­ar­gerð um of­an­greind viðskipti, þar sem m.a. er lýst aðdrag­anda til­boðsins, fram­vindu þess og ákv­arðana­töku, for­send­um og rök­um viðskipt­anna, skyld­um Lands­bank­ans gagn­vart BR skv. samn­ingi aðila frá des­em­ber 2010 og ákvæðum eig­enda­stefnu rík­is­ins.“

Loks var vikið að því að Banka­sýsl­an telji að þess­ar upp­lýs­ing­ar, sem beðið er um, geti haft mik­il áhrif á dag­skrá, umræður og niður­stöður fyr­ir­hugaðs aðal­fund­ar bank­ans á miðviku­dag. Var þess því kraf­ist að bankaráðið fresti aðal­fund­in­um um fjór­ar vik­ur sem bankaráðið var við.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert