Viðreisn styður vantraust á ríkistjórnina

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Árni Sæberg

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði í umræðunum um vantrauststillögu Flokks fólksins og Pírata á ríkisstjórnina, sem stendur yfir á Alþingi, að Viðreisn muni styðja vantraustið.

Þorgerður Katrín sagði að það eigi aldrei að vera léttvægt skref að boða til vantrausts en það sé engu að síður lýðræðislegur réttur hvers þingmanns að leggja fram vantraust.

„Við þurfum starfhæfa ríkisstjórn og það er þessi ríkisstjórn ekki. Við þurfum ríkisstjórn sem tekur ákvarðanir og lætur ekki innbyrðis átök stöðva allt. Við getum ekki haft ríkisstjórn sem rífur í handbremsuna þegar þjóðin þarf að leggja á heiðina,“ sagði Þorgerður Katrín meðal annars í ræðu sinni.

Hún sagði ennfremur að þetta stjórnarmynstur sé ekki að gera neinum gagn, allra síst þjóðinni.

Umræðan hófst klukkan 17 og þegar þessi frétt er skrifuð eru enn 17 á mælendaskrá og því viðbúið að umræðan standi langt fram eftir kvöldi og jafnvel inn í nóttina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert