Neitaði að skrifa undir vegna „orðsporsáhættu“

Endurskoðandi félagsins til 48 ára neitaði að skrifa undir.
Endurskoðandi félagsins til 48 ára neitaði að skrifa undir.

Ekki var hægt að leggja fram endurskoðaðan ársreikning á aðalfundi Blaðamannafélags Íslands sökum þess að endurskoðandi félagsins til fjölda ára neitaði að undirrita hann. 

Því þarf að leita til annars endurskoðanda og boða til framhaldsfundar eftir að endurskoðun ársreiknings lýkur. 

Þetta kom fram á fundi Blaðamannafélags Íslands þar sem fjármál félagsins voru rædd.

Í tilkynningu á vef Blaðamannafélagsins um málið segir að öll bókhaldsgögn hafi farið til endurskoðanda í febrúar svo hægt væri að vinna að endurskoðun ársreiknings.   

Spurður um verklag og innri endurskoðun 

Drög að endurskoðum ársreikningi bárust skrifstofu og í framhaldinu segir að formaður hafi sent spurningar á endurskoðanda um verklag við endurskoðun, sérstaklega innri endurskoðun, því engar spurningar tengdar úrtökum úr færslum höfðu borist skrifstofu, auk þess sem endurskoðandi hafði ekki sent neinar athugasemdir við ársreikninginn.

Endurskoðandi félagsins valdi aftur á móti að svara ekki spurningum heldur er hann sagður hafa boðað til fundar með formanni og ritara félagsins þann 8. apríl síðastliðinn.

Á þeim fundi tilkynnti endurskoðandi að hann muni ekki undirrita ársreikning félagsins.  

Tilkynnti veikindaleyfi 

„Skýringin sem hann gaf var sú að orðsporsáhætta endurskoðunarfyrirtækisins væri aukin í tengslum við umræðu um fjármál félagsins og óháða skoðun á fjárreiðum, sem hann hafi lesið um í fjölmiðlum. Óskaði formaður eftir því að fá skýringarnar skriflega, en við því hefur endurskoðandi ekki orðið, og tilkynnti í framhaldinu að hann væri kominn í veikindaleyfi,“ segir í tilkynningu félagsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert