Stóraukið fé til samgöngusáttmála

Nú eru liðnir tíu mánuðir frá því að boðaðri uppfærslu …
Nú eru liðnir tíu mánuðir frá því að boðaðri uppfærslu samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins átti að vera lokið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það eru umtalsvert meiri peningar sem veita á í verkefnið en gert var ráð fyrir áður, en við sjáum þó ekki heildarmyndina fyrr en uppfærslu samgöngusáttmálans er lokið,“ segir Árni M. Mathiesen, formaður stjórnar Betri samgangna, í samtali við Morgunblaðið, en í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem kynnt var á þriðjudag, kemur m.a. fram að verja á a.m.k. 40 milljörðum króna meira fé til samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins en áður hafði verið gert ráð fyrir.

Í fjármálaáætluninni kemur m.a. fram að í tengslum við viðræður, sem enn standa yfir um viðauka við samgöngusáttmálann, sé gert ráð fyrir að framlag til Betri samgangna aukist um fjóra milljarða á ári frá og með árinu 2025 eða um 20 milljarða alls á tímabili fjármálaáætlunarinnar sem tekur til áranna 2024 til 2029. Til viðbótar beinum framlögum til Betri samgangna er gert ráð fyrir 20 milljarða lánveitingu úr ríkissjóði til samgöngusáttmálans á tíma áætlunarinnar.

Uppfærsla dregist á langinn

Þetta þýðir að 40 milljörðum til viðbótar verður varið til verkefna sáttmálans, en óljóst er hvenær tekjur fara að skila sér vegna væntanlegrar sölu byggingalóða í Keldnalandi og þá hafa engar ákvarðarnir verið teknar um fyrirhugaða gjaldtöku á vegum.

Nú eru liðnir tíu mánuðir frá því að boðaðri uppfærslu samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins átti að vera lokið, en í fyrravor var rætt um að endurskoðun sáttmálans lyki í júní sl. Ekki gekk það eftir og var þá rætt um að henni lyki í nóvember og loks desember. Síðast þegar spurst var fyrir um stöðu verkefnisins var rætt um verklok um miðjan mars, en ekkert bólar á niðurstöðunni enn.

Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert