Vanstillt umræða og „fyrir neðan allar hellur“

Ásmundur Friðriksson.
Ásmundur Friðriksson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að niðurstaða vantrauststillögunnar í gær, sem var felld, hafi verið stórsigur fyrir ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar.

„Þá vil ég segja eins og er, virðulegi forseti, að framsaga og umræðu minnihlutans um vantraustið var fyrir neðan allar hellur og raunar afar vanstillt og á lágu plani. Þar var gengið nærri persónu ráðherra með harkalegum ásökunum og náðu engri átt að mínu mati,“ sagði Ásmundur á Alþingi fyrr í dag um í umræðum um störf þingsins.

Þings­álykt­un­ar­til­laga um van­traust á rík­is­stjórn­ina, þingrof og nýj­ar kosn­ing­ar var felld á Alþingi í gærkvöldi. Til­lag­an var felld með 35 at­kvæðum gegn 25 at­kvæðum.

Ríkisstjórnin aðeins nýtekin við

Hann sagði ríkisstjórnina vera nýtekna við og því ekki gefist kostur á að sýna hvað í henni býr. Það hafi ekki verið nauðsynlegt af hálfu stjórnarandstöðunnar að eyða tíma þingsins í að „samþykkja sterka stuðningsyfirlýsingu“ við ríkisstjórnina.

„Ég hef fulla trú á því að ríkisstjórnin muni spila sóknarbolta og við skulum sjá hvort hún skori ekki fljótlega mörk og sýni hvað í henni býr,“ sagði Ásmundur.

Stórsigur fyrir ríkisstjórnina

Hann sagði það vera einstaka upplifun að hlusta á stjórnarandstöðuna tala um lífskjör á Íslandi. Hann segir að þó allir kalli eftir því að verðbólga minnki og að vextir lækki þá sé hagvöxtur mikill og kaupmáttur með því besta sem gerist í heiminum.

„Niðurstaða vantrauststillögunnar er stórsigur fyrir ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, sem hefur að baki sér sterkan þingmeirihluta úr síðustu þingkosningum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert