Duster-bifreiðin farin úr hrauninu

Dacia Duster-bifreið úti í hrauni við gosstöðvarnar.
Dacia Duster-bifreið úti í hrauni við gosstöðvarnar. Ljósmynd/Hafþór Skúlason

Það að ferðamenn reyni að komast of nálægt gosstöðvum við Sundhnúkagíga er vandamál sem hefur einnig komið upp fyrri eldgosum á Reykjanesskaga. Ekki hefur þó þurft að kalla til björgunarsveitir í tengslum við núverandi gos, en athygli vakti þó á dögunum að reynt var að aka Dacia Duster-bifreið utanvegar við leiðigarð á svæðinu. Sú bifreið er þó farin núna.

„Það eru auðvitað alltaf einhverjir sem koma sér nærri gosstöðvum, það er óumflýjanlegt,“ segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is en bætir við: „Þetta hefur í sjálfu sér ekki verið stórt vandamál hingað til.“

Eins og mbl.is hefur greint frá þá var Dacia Duster-bif­reið úti í hrauni við byrj­un leiðigarðsins sem liggur vest­ur út fyr­ir Bláa lónið á sunnudaginn. Úlfar segir bílnum hafi aldrei verið ekið inn fyrir lokunarpósta og að hann sé farinn.

Nokkrir staðir sem ferðamenn gera sér leið frá

Ferðamennirnir Bata Osovina og Tata Osovina hafa und­an­farið birt mynd­bönd á sam­fé­lags­miðlum sín­um þar sem þeir eru komn­ir mjög ná­lægt eld­gos­inu við Sund­hnúkagíga. Í einu mynd­band­inu, sem hef­ur vakið mikla at­hygli, sést hvernig þeir elda pyls­ur á pönnu með hjálp hit­ans frá hraun­inu.

Hvernig komast göngugarpar upp að nýju gosstöðvunum?

„Þeir gætu verið að koma frá Grindavíkurvegi, Bláa lóninu eða eins frá bílastæðunum við Fagradalsfjall,“ svarar Úlfar.

Hann ítrekar að fólk sem fer inn á hættusvæði ferðist á eigin ábyrgð.

„Þetta er vandamál sem við þekkjum vel alveg frá fyrsta gosi og þetta er gos númer sjö.“

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fólk fer upp að gömlu gosstöðvunum

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, kveðst ekki hafa upplýsingar um að það sé neinn sérstakur fjöldi fólks sem er að reyna gera sér leið upp að nýja gosstöðvunum og hefur björgunarsveitin ekki fengið útkall vegna þess.

Hann nefnir þó að einhver fjöldi fólks sé farinn að gera sér ferðir upp að gömlu gosstöðvunum. Um helgina hafi til dæmis björg­un­ar­sveit­irn­ar Þor­björn og Skyggn­ir bjargað þrem­ur ör­magna göngu­mönn­um á göngu­leiðinni að Litla-Hrút rétt vest­an við Kistu­fell.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka