Dæmdur fyrir að ráðast á starfsmann slysadeildar

Starfsmaður slysadeildarinnar hlaut ýmsa áverka.
Starfsmaður slysadeildarinnar hlaut ýmsa áverka. Ljósmynd/Þór

Karlmaður hefur verið dæmdur í þriggja mánaða fangelsi fyrir að hafa ráðist á starfsmann á slysadeild Landspítala í Fossvogi. Var hann sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni, en hann játaði sök.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að kvöldið föstudaginn 9. september 2022 sló karlmaðurinn starfsmanninn í hægra gagnaugað, greip um hnakka hans, klóraði háls hans og reif starfsmannabol hans.

Starfsmaðurinn hlaut áverka, þar á meðal yfirborðsskrámur og marbletti aftanvert á hálsinum, dreifð eymsli á hálsi beggja vegna, væg eymsli yfir vöðvum í hálsi  og væga bólgu og eymsli yfir hægra gagnauga.

Á langan sakaferil að baki

Karlmaðurinn sem var dæmdur á að baki langan sakaferil frá árinu 1993 en árið 2023 var hann með dómi héraðsdóms dæmdur í 45 daga fangelsi fyrir brot gegn áfengislögum og lögum um ávana- og fíkniefni.

Brotið sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir framdi hann áður en dómurinn var kveðinn upp árið 2023 um brot gegn áfengislögum og var honum því dæmdur hegningarauki í þessu máli.

Auk þess að sæta fangelsi í þrjá mánuði er honum gert að greiða málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns upp á 250 þúsund krónur sem og tæplega 46 þúsund krónur í annan sakarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert