Sektir þrátt fyrir skort á sönnunum

Skjáskot/Fjölmiðlanefnd

Fjölmiðlanefnd hefur tekið ákvörðun um að sekta Árvakur um 1,5 milljónir króna vegna þess sem nefndin segir að séu „dulin viðskiptaboð“ í tilteknum fréttum frá árinu 2022 og fram á árið 2023 á matarvef og smartlandi á mbl.is. Árvakur hefur mótmælt þessu, bent á að engin greiðsla hafi verið innt af hendi vegna þessara frétta og að í þeim tilfellum þegar Árvakur birtir fréttir í samstarfi við aðra til kynningar og þiggi greiðslu fyrir séu þær merktar sérstaklega.

Fjölmiðlanefnd leitaði til þeirra fyrirtækja sem selja vörurnar sem fjallað var um. Öll sögðu þau það sama og Árvakur, að ekkert hefði verið greitt fyrir birtingu fréttanna. Að minnsta kosti eitt þeirra sagði, þegar Fjölmiðlanefnd spurði nánar, að það teldi ekki að tengsl væru á milli þess að eiga í viðskiptasambandi við Árvakur og að fá umfjallanir um vörur eða þjónustu á mbl.is. Umfjallanir um vöru eða þjónustu fyrirtækisins hefðu birst á mbl.is bæði fyrir gerð auglýsingasamnings og eftir að því samningssambandi lauk.

Sönnunargögn ekki skilyrði

Afdráttarlaus neitun fjölmiðilsins og fyrirtækjanna breytti því ekki að Fjölmiðlanefnd tók ákvörðun um sekt og segir í ákvörðuninni að Fjölmiðlanefnd meti það svo að „skilgreiningar laga um fjölmiðla á viðskiptaboðum og duldum viðskiptaboðum útiloki ekki að umfjöllun sem ber öll merki þess að vera viðskiptaboð, en er ekki merkt sem slík, geti talist til dulinna viðskiptaboða þrátt fyrir að ekki hafi verið færðar sönnur á að greiðsla eða annað endurgjald hafi komið fyrir efnið. Þá geti slík umfjöllun talist til dulinna viðskiptaboða þrátt fyrir að tilgangur fjölmiðlaveitu með miðlun hennar hafi ekki verið að þjóna auglýsingamarkmiðum.“

Með þessum rökum ákvað Fjölmiðlanefnd að sekta Árvakur um 1,5 milljónir króna og segir að Árvakur hafi ekki áður brotið gegn lögum um dulin viðskiptabrot.

Sams konar ákvörðun gegn Sýn í fyrra

Þessari ákvörðun Fjölmiðlanefndar svipar til ákvörðunar sem nefndin tók í fyrra vegna umfjöllunar í þáttum á miðlum Sýnar sem nefndin taldi innihalda „dulin viðskiptaboð“. Sýn mótmælti þessu enda hefði ekki verið  um viðskiptaboð að ræða og ekki verið greitt fyrir umfjöllunina. Fjölmiðlanefnd brást við því með sama hætti og nú, að segja að nefndin þurfi ekki að sýna fram á að greiðsla hafi komið fyrir umfjöllunina og að umfjöllun geti „talist til dulinna viðskiptaboða þrátt fyrir að tilgangur fjölmiðlaveitu með miðlun hennar hafi ekki verið að þjóna auglýsingamarkmiðum.“ Fjölmiðlanefnd telur samkvæmt ákvörðununum nægja, að efni hafi „á sér þann blæ að vera dulin auglýsing eða að ætlunin  hafi verið að þjóna auglýsingamarkmiðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert