Mannaferðir um miðja nótt í endurvinnslustöð

Lögregla var einnig kölluð til vegna viðskiptavina sem voru til …
Lögregla var einnig kölluð til vegna viðskiptavina sem voru til vandræða í verslun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðstoðar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var óskað um miðja liðna nótt, þar sem vart hafði orðið við mannaferðir á endurvinnslustöð.

Lögregla var einnig kölluð til vegna viðskiptavina sem voru til vandræða í verslun, í umdæmi lögreglustöðvarinnar sem sinnir verkefnum í Kópavogi og Breiðholti.

Bílstjórar stöðvaðir

Bifreið var þar einnig stöðvuð en ökumaður hennar er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Þá reyndist hann vera án gildra ökuréttinda.

Í umdæmi Hafnarfjarðar og Garðabæjar var bifreið einnig stöðvuð en viðkomandi ökumaður er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis. Þá reyndist hann þegar sviptur ökuréttindum vegna fyrri afskipta lögreglu.

Annars staðar á höfuðborgarsvæðinu voru fjórir ökumenn stöðvaðir, grunaðir um of hraðan akstur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert