Opin fyrir almennri kosningu biskups

Aldrei hafa fleiri tekið þátt í kjöri biskups en nú í vor þegar Guðrún Karls Helgudóttir var kjörin. Alls voru 2.300 sem höfðu kosningarétt. Síðast þegar kosið var voru um fimm hundruð sem höfðu atkvæðisrétt.

Nýkjörinn biskup telur umhugsunarvert að opna enn frekar kjör til biskups og telur það leið til að vekja athygli á þjóðkirkjunni og færa hana á vissan hátt til fólksins. Hér áður fyrr voru það eingöngu prestar sem kusu biskup Íslands.

Guðrún Karls Helgudóttir er gestur Dagmála í dag. Hún mun formlega taka við embættinu 1. júlí en vígsluathöfn verður haldin 1. september með pompi og prakt.

Kosningar kalli á athygli

Séra Guðrún segist spennt að taka við embættinu en ætlar að nota tímann fyrri hluta sumars til að kveðja sóknarbörn sín í Grafarvogi.

Spurð hvort við ættum að hafa þjóðkjörinn biskup svarar Guðrún því til að hún telji koma til að greina að opna á frekari þátttöku í biskupskjöri. Hún segir kannski ekki rétt að allir tækju þátt en til greina kæmi að þeir sem eru í þjóðkirkjunni gætu tekið þátt í kjöri biskups. Kosningar kalli á athygli og slík athygli gæti aukið áhuga á þjóðkirkjunni.

Hún bendir einnig á að ekki þurfi að koma til lagabreyting, heldur geti kirkjuþing breytt reglum í þá veru.

Særingar og hrollvekjur

Í Dagmálum í dag ræðir Guðrún allt milli himins og jarðar sem tengist kirkjunni. Særingar og hrollvekjukvikmyndir bera á góma. Einnig spurningin um hvort guð sé til. Sérstaklega á tímum þar sem grimmileg stríð geisa í heiminum og hörmungar eru daglegt brauð. En hvað um djöfulinn? Er hann til?

Guðrún biskup fer um víðan völl og upplýsir að hún stefni á að minnsta kosti tvö maraþonhlaup á næstu árum til að ljúka við stóru sexuna, það er að hafa tekið þátt í sex stærstu maraþonhlaupum í heiminum. Hún upplýsir líka hver hennar besti tími í maraþonhlaupi til þessa er.

Það er nýr biskup að taka við og henni fylgja nýir straumar. Í viðtalsbrotinu hér að ofan fer Guðrún yfir hugmyndir um biskupskjör. Þátturinn í heild sinni birtist í morgun og er opinn áskrifendum Morgunblaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert