Vegagerðin á eftir áætlun en borgin klárar fyrr

Sæbrautin í dag.
Sæbrautin í dag. mbl.is/Arnþór

Tafir hafa orðið á götuhreinsun á stofnbrautum á höfuðborgarsvæðinu í vor. Af stað er farin önnur umferð í götuhreinsun stofnbrauta og lýkur vonandi í lok maí. Reykjavíkurborg er hins vegar á undan áætlun með hreinsun á sínum götum. 

Bjarni Stefánsson, deildarstjóri þjónustudeildar Vegagerðarinnar á suðursvæði, segir í samtali við mbl.is að ein yfirferð hafi verið farinn með sópi yfir stofnbrautirnar í vor.

„Það er að fara af stað seinni umferðin þar sem er farið í gatnamót og þau þvegin, það á að vera farið af stað. Þá eru gatnamótin þvegin og svo verður allt sópað aftur. Það á að vera ein komin af stað sem er ekki bara sópur heldur er líka þvottur á öllum umferðareyjum sem eru hellulagðar í kringum gatnamót," segir Bjarni. 

Eyjurnar sóðalegastar

„Þetta er það sem er eiginlega það sóðalegasta eftir veturinn, þessi mikla drulla sem er upp á þessum hellulöguðu eyjum og annað í kringum gatnamótin og þeir eiga að vera byrjaðir að þvo það.“

Bjarni segir að önnur umferð hreinsunarinnar hafi átt að fara af stað í byrjun maí og sé einhver hluti hennar búinn. 

„Ég hef grun um að þetta hafi aðeins dregist, þvottayfirferðin,“ svarar Bjarni aðspurður hvort verkefnið sé á áætlun. Segist hann vonast til að hreinsunin verði búin fyrir lok maí.

Vegagerðin sjái um sína vegi

Samkvæmt verkáætlun sem finna má á heimasíðu Reykjavíkurborgar má sjá að gert sé ráð fyrir að hreinsunin muni standa yfir til 27. maí. Hjalti Jóhannes Guðmundsson, skrifstofustjóri skrifstofu rekstur- og umhirðu borgarlandsins, segir hreinsunina jafnvel geta klárast fyrr.

 „Við reiknum með að geta jafnvel klárað þetta aðeins fljótar en venjulega út af því að við hættum að sanda hjóla- og gönguleiðir fyrir 2-3 árum, og þá er þetta svona skilvirkara og gengur betur,“ segir Hjalti.

Á vefsíðu Reykjavíkurborgar kemur fram að hreinsun stofnbrauta borgarinnar hafi m.a. verið í forgangi. Eru þó stofnbrautunum skipt á milli Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar. Spurður út í þau óhreinindi sem enn hafa sést á ýmsum stofnbrautum borgarinnar segir Hjalti að Vegagerðin sjái um sína vegi:

„Það er náttúrulega ekki í okkar veghaldi ef þetta er Miklabrautin eða Kringlumýrabrautin. Það er Vegagerðin. Þetta er bara sitthvort veghaldið. Vegagerðin bara sér um sína vegi en auðvitað erum við meðvituð um hvaða aðferðum þeir eru að beita og svoleiðis.“

Ekki hægt að gera öllum til geðs

Bjarni segir að skipting frá sandi yfir í salt sem hálkuvarnarefni eigi stóran þátt í að hreinsun taki skemmri tíma.

„Við hættum að nota sand sem hálkuvarnarefni fyrir einhverjum 2-3 árum síðan og notum núna salt sem hefur reynst í vetrarþjónustunni gríðar vel og ég held að hafi verið svona almenn ánægja með. Auðvitað er alltaf einhver óánægður en það er aldrei hægt að gera öllum til geðs. En afleiðingin er náttúrlega sú að við vonumst til þess, sérstaklega inn í hverfunum og staðbundið, að svifryksmengun minnki og líka það að borgarlandið komi allt öðruvísi og betur undan vetri. Stígakerfið er ekki allt út í sandi og þá tekur það okkur náttúrulega mun skemmri tíma að hreinsa það. Ég held að þetta sé nú bara í allra þágu.“

Spurður um hverskonar óánægja hafi komið upp varðandi skiptin frá sandi yfir í salt segir Hjalti að bent hafi verið á að saltið fari illa í þófa á hundum og að fylgjast þurfi með jöðrunum á göngustígum varðandi gróður.

„En það hefur ekki komið neitt í svona athugunum hjá okkur að það hafi haft einhver veruleg áhrif.“

Bjarni segir hins vegar að skiptingin sé töluvert betri fyrir umhverfið er varðar svifryk og þeirri mengun sem því fylgir.

„Já það er alveg klárt. Að losna við allan sandinn á vorin sem brotnar niður og þyrlast í fínna ryk og upp í loft og skapar svifryksmengun þá sérstaklega svona svæðisbundið,“ segir Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert