„Mjög sérstakt árið 2024“

Rúnar Hroði Geirmundsson.
Rúnar Hroði Geirmundsson. Ljósmynd/Aðsend

Rúnar Hroði Geirmundsson styrktarþjálfari segir ákvörðun mannanafnanefndar um að banna nafnið Hroða mjög sérstaka. Segir hann að ekkert muni stöðva sig í að reyna að fá nafnið í gegn.

„Það er ekkert sem mun stoppa mig, ég mun ekki stoppa fyrr en ég fæ þetta í gegn,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Mannanafnanefnd birti 15. maí úrskurð þar sem fram kom að karlmannseiginnafninu Hroða hefði verið hafnað af nefndinni.

Í samtali við mbl.is segir Rúnar Hroði ákvörðunina hafa komið á óvart.

„Já, þetta meikar engan sens. Þetta stangast á við önnur nöfn sem búið er að samþykkja,“ segir hann og bætir við: „Þú mátt heita Ljótur Hrappur.“

Hafnað vegna neikvæðrar túlkunar

Spurður um þær skýringar sem Rúnar fékk frá mannanafnanefnd segir hann nefndina hafa bent á neikvæða túlkun nafnsins.

Í úrskurðinum stendur að ef nefndin samþykki eiginnafn, færist það á mannanafnaskrá. Það kann að leiða til þess að börn hljóti það, en mikilvægir hagsmunir barna eru að þeim séu ekki gefin nöfn sem telja verður ósiðleg, niðrandi eða meiðandi.

Bent er á í úrskurðinum að nafnorðið hroði merki m.a. hrotti og ruddaskapur, ásamt því að hafa mjög óvirðulega merkingu í skyldum orðum eins og hroðalegur, hroðamenni og hroðaverk.

Rúnar segir aftur á móti að íslenska tungumálið taki sífellt breytingum.

„Íslensk tunga er alltaf að þróast, til dæmis að segja að einhver sé geggjaður eða að eitthvað sé klikkað er orðið jákvætt í dag, þegar það þótti vera læknisfræðilegt hugtak að fólk væri bara gengið af göflunum í gamla daga. Þetta er jákvætt nafn fyrir mér og er ég.“

Mun sækja sér lögfræðiaðstoð

Rúnar segir það skrýtið að samfélagið fagni fjölbreytileika á meðan nefndin banni fólki að heita því nafni sem það vill.

„Það er tímaskekkja á meðan ríkisstjórnin og samfélagið segir fögnum fjölbreytileikanum, þá er einhver nefnd sem bannar þér að heita því sem þú vilt heita, þegar það kemur þeim ekkert við og þekkja þig ekki neitt. Það er mjög sérstakt árið 2024 að einhver nefnd af einhverju fólki sem hefur aldrei hitt þig getur sagt þér hver þú ert.“

Spurður um hans næstu skref segir Rúnar:

„Bara sækja mér lögfræðiaðstoð og fá að vera ég, lagalega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert