Kærir teiknara Vísis til siðanefndar

Arnar kveðst hafa brugðist skjótt við og kært teikninguna til …
Arnar kveðst hafa brugðist skjótt við og kært teikninguna til siðanefndar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Arnar Þór Jónsson forsetaframbjóðandi hefur kært skopstælingu Halldórs Baldurssonar, teiknara Vísis, til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands. Er ástæðan sú að í teikningunni er Arnar settur í klæðnað sem vísar til einkennisklæðnaða nasista.

„Ég brást skjótt við og kærði þetta umsvifalaust til siðanefndar Blaðamannafélagsins,“ segir Arnar í samtali við mbl.is.

Arnar greindi frá kærunni í færslu á Facebook-síðu sinni fyrr í dag þar sem hann segir Blaðamannafélagið hafa móttekið kæruna.

Verði að hafa afleiðingar

„Á öllum þeim hundruð blaðsíðna sem ég hef skrifað er ekkert sem réttlætir þetta og í alþjóðlegu samhengi er þetta svo alvarlegt að erlend blöð hafa til dæmis látið teiknara sína fara fyrir svipaða framsetningu,“ segir Arnar.

Ertu þá að kalla eftir uppsögn Halldórs?

„Það verður að vera Blaðamannafélagsins að svara því, Vísis og Halldórs sjálfs. Ég tek þetta mjög alvarlega og mér finnst að svona myndbirting verði að hafa afleiðingar.“

Öfgafullt að halda fram hófstilltum skoðunum

Spurður hvort hann geti séð fyrir sér hvað liggi að baki skopstælingu Halldórs segir Arnar ekki geta gert það: „Þessi teikning er svo langsótt að ég get ekki ímyndað mér hvaðan tengin kemur.“

Arnar segir að það eina sem honum detti þó í hug sé að gluggi Overton hafi færst það langt til vinstri að það teljist öfgafullt að halda fram hófstilltum klassískum skoðunum um frjálslyndi.

„Hin svokallaði Overton-gluggi kann að hafa færst svo langt til vinstri að það teljist í einhverjum skilningi öfgafullt að halda fram hófstilltum klassískum skoðunum um frjálslyndi, lýðræði og lýðveldisstjórnarformið. Slík sjónarmið má ekki jaðarsetja í pólitískri umræðu,“ segir Arnar og heldur áfram:

„Ef það verður gert þá er það grafalvarleg staða í samfélagi sem kennir sig við lýðræðislega stjórnarhætti.“

Búningurinn vekji andúð

Í skopstælingu Halldórs eru fleiri frambjóðendur í búningum en Arnar segir mikinn mun vera á búningnum sem hann er settur í og þeim sem hinir frambjóðendurnir klæðast:

„Það eru ekki búningar sem kalla fram svona djúpa andúð. Skírskotunin er ekki jafn hlaðinn.“

„Ég er þarna settur í einkennisbúning. Fólk getur klætt sig í hitt til gamans, það klæðir sig engin í þetta til gamans. Það er hugmyndafræði á bak við þennan einkennisklæðnað sem er ekki endilega á bak við framsetninguna í tilviki hinna frambjóðendanna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert