7.187 hafa kosið utan kjörfundar

Á höfuðborgarsvæðinu hafa 4.653 kosið utan kjörfundar.
Á höfuðborgarsvæðinu hafa 4.653 kosið utan kjörfundar. Eggert Jóhannesson

Talsvert færri hafa kosið utan kjörfundar í ár heldur en í forsetakosningunum 2020, en atkvæði eru orðin 7.187 um land allt.

Þetta segir Sigríður Kristinsdóttir sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu í samtali við mbl.is.

Á höfuðborgarsvæðinu hafa 4.653 kosið utan kjörfundar, en til samanburðar við forsetakosningar 2020, sem voru þær fjölmennustu til þessa, höfðu 7.329 kosið utan kjörfundar á höfuðborgarsvæðinu á sama tíma.

Fleiri frambjóðendur og fyrri dagsetning skýring

Sigríður telur tvær mögulegar skýringar vera á muninum. Fjöldi frambjóðenda hefur áhrif á ákvörðunartöku hjá fólki en í ár eru 12 í framboði til samanburðar við tvo, þar með talið sitjandi forseta, árið 2020.

Breytt dagsetning á forsetakosningum er önnur ástæða fyrir minni aðsókn. Kjördagur forsetakosninga 2020 var í lok júní eftir lokun skóla og ástæða meiri aðsóknar í utan kjörfundar kosningar vegna sumarfrís. Kjördagur í ár er fyrir sumarfrí, eða 1. júni, og því líklegt að fleiri muni kjósa á kjördag.

Aðsókn eykst

Líklegt er að aðsókn muni aukast á næstu vikum, en samtals greiddu 449 atkvæði í gær á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert