Ísland virðir ákvörðun Alþjóðlega sakamáladómstólsins

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ræddi við mbl.is um ákvörðun …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ræddi við mbl.is um ákvörðun ICC. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslensk stjórnvöld virða ákvörðun Alþjóðlega sakamáladómstólsins (ICC) um að fara fram á handtökuskipan á hendur ísraelskum ráðherrum og leiðtoga Hamas, að sögn utanríkisráðherra.

Eins og mbl.is greindi frá í gær hef­ur ICC farið fram á hand­töku­skip­an­ á hend­ur Benja­mín Net­anja­hú, for­sæt­is­ráðherra Ísra­els, Yoav Gall­ant, varn­ar­málaráðherra Ísra­els, og Ya­hya Sinw­ar, leiðtoga Ham­as á Gasa.

Kraf­an er lögð fram á grund­velli stríðsglæpa og glæpa gegn mann­kyn­inu vegna hryðjuverkanna 7. októ­ber og átakanna sem hafa geisað á Gasa eft­ir það.

„Ísland er og hefur um árabil verið ötull bakhjarl Alþjóðlega sakamáladómstólsins og íslensk stjórnvöld styðja dómstólinn í sínu hlutverki sínu hlutverki við að sporna gegn refsileysi fyrir alþjóðaglæpi,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra í samtali við mbl.is, spurð út í ákvörðun ICC.

Talið er að um 36 þúsund manns hafi fallið í …
Talið er að um 36 þúsund manns hafi fallið í árásum á Gasaströndinni. Heilbrigðisyfirvöld á Gasa segja að megni látinna hafi verið óbreyttir borgarar. AFP

„Mikilvægasta hagsmunamál Íslands“

Þórdís segir að stuðningur Íslands við ICC sé í samræmi við „mikilvægasta hagsmunamál Íslands“ sem sé að tryggja að alþjóðalög, en ekki hnefaréttur, ráði úrslitum í samskiptum ríkja.

„Við höfum haldið því til haga og munum gera áfram, að alþjóðalögum fylgi ekki eingöngu heilög réttindi heldur heilagar skyldur,“ segir ráðherra.

„Íslensk stjórnvöld taka beiðni saksóknarans mjög alvarlega enda eru um alvarlega ásakanir að ræða,“ bætir hún við.

Karim Khan, saksóknari hjá ICC, lagði fram beiðni um handtökuskipan …
Karim Khan, saksóknari hjá ICC, lagði fram beiðni um handtökuskipan á hendur leiðtoga Hamas og ísraelskum ráðherrum. AFP

Svarar ekki hvort Netanjahú yrði handtekinn á Íslandi

Aftur á móti hefur hefur dómstóllinn enn ekki tekið ákvörðun um hvort handtökuskipanin verði samþykkt. Þórdís segir að það gæti tekið nokkrar vikur.

„Við erum með alþjóðakerfi og Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn er hluti af því kerfi. Þegar upp koma vísbendingar eða rökstuddur grunur um að alþjóðalög séu brotin, treystum við að það fari í þann farveg sem það fer í.“

Er þetta tilefni til að telja það trúlegra að Ísrael sé að fremja glæpi?

„Íslensk stjórnvöld hafa ekki sömu forsendur – gögn og annað – og þau sem hafa legið yfir þessu undanfarnar vikur og mánuði. Sú ákvörðun sem þarna er tekin er gríðarlega stór og söguleg. Það gerir Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn ekki nema að vel athuguðu máli. Þannig að það sýnir að það er ástæða fyrir því að þetta er gert. Það fer síðan eftir því hver næstu skref verða, hvaða ákvörðun verður tekin,“ svarar ráðherra.

Ef ICC samþykkir þessa beiðni, myndi Netanjahú vera handtekinn ef hann kæmi til Íslands?

„Við erum ekki komin á þann stað núna. Við tökum það bara fyrir eins og það birtist,“ segir hún og undirstrikar aftur að Ísland hafi verið ötull bakhjarl ICC. „[Við] viljum að [ICC] fúnkeri í þessu alþjóðakerfi sem við eigum undir að allt haldi. Við höfum hingað til stutt við hann og fylgt því sem þaðan kemur.“

Talið er að um 1.200 mans hafi verið drepnir í …
Talið er að um 1.200 mans hafi verið drepnir í hryðjuverkaárás Hamas þann 7. október. AFP/Gil Cohen-Magen

Fórnarlömbin sett á sama stall

Helstu stuðningsmenn Ísraels, Bandaríkjamenn þar helst, hafa sagt að það sé ekki réttlætanlegt að setja Hamas-hryðjuverkamenn og kjörna ráðherra í Ísrael á sama stall.

Þórdís túlkar ákvörðun ICC á annan hátt. Dómstóllinn sé með þessu að setja alþjóðalög og fórnarlömbin átakanna á sama stall.

„Þegar ég horfi á þessa ákvörðun og þá vinnu sem dómstóllinn er búinn að vinna, horfir það þannig við mér að það sé verið að setja alþjóðalögin á sama stalla, það sé verið að setja fórnarlömbin á sama stall. Ég get ekki séð að með þessari ákvörðun sé verið að setja hryðjuverkasamtökin Hamas og lýðræðislega kjörin stjórnvöld í Ísrael á sama stall.

„En það er verið að segja: Alþjóðalögin gilda sama hvað. Og ef að það er þannig að verið er að brjóta mannúðarlög og alþjóðalög, sem við höfum fengið nokkuð skýra frásagnir um, þá er fólkið sem verður fyrir því sett á sama stall.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert